Frábær mæting á kynningarfund um heilsueflingu

Frábær mæting var á kynningarfund fyrir verkefnið „Fjölþætt heilsurækt í Rangárþingi eystra“ sem haldinn var í Hvoli á Hvolsvelli fyrr í vikunni.

Um sextíu manns mættu og hlýddu á þau Janus Guðlaugsson, leiðbeinanda verkefnisins, Anítu Tryggvadóttur og Ingibjörgu Sæmundsdóttur, meistaranema í íþrótta- og heilsufræðum, en þær munu sjá um verkefnastjórnina.

Viðfangsefni verkefnisins er forvarnarstarf og heilsuefling á sviði líkams- og heilsuræktar eldri aldurshópa í Rangárþingi eystra. Markmiðið er að bæta afkastagetu hinna eldri, auka þol þeirra og styrk og efla hreyfifærni með markvissri þjálfun.

Sértækar íhlutanir fara fram í formi fjölþættrar þjálfunar, næringarráðgjafar og fræðslu í tólf vikur. Stefnt er að því að halda verkefninu áfram til lengri tíma að þessum tíma liðnum og stuðla þannig áfram að bættum lífsgæðum eldri aldurshópa í sveitarfélaginu.

Markmiðið er jafnframt að kanna líkamsástand þátttakenda í upphafi verkefnisins og að tólf vikna þjálfun lokinni. Helstu mælingar verða á sviði daglegrar hreyfingar, afkastagetu og hreyfifærni.


Aníta og Ingibjörg ásamt Janusi, leiðbeinanda sínum.

TENGDAR FRÉTTIR:
Spennandi verkefni í heilsueflingu fyrir eldri aldurshópa

Fyrri greinÖkumenn á Suðurlandi kanni myndefni úr bílum sínum
Næsta greinGestirnir sterkari í seinni hálfleik