Frábær mæting í morgunmatinn

Á fimmta þúsund gesta mætti í morgunverðarhlaðborð í tjaldi í miðbæ Selfoss í morgun en morgunmaturinn er árviss hluti af hátíðinni Sumar á Selfossi.

Það eru fyrirtæki í bænum sem bjóða í morgunmatinn sem framreiddur er af liðsmönnum Knattspyrnufélags Árborgar.

Már Ingólfur Másson, einn nefndarmanna, segir að mætingin í morgunmatinn hafi farið fram úr björtustu vonum. „Við skjótum á að á fimmta þúsund manns hafi mætt hérna í morgun og á tímabili teygði röðin sig vel á annað hundruð metra eftir endilöngum bæjargarðinum. Fólk er í sólskinsskapi og lætur biðina ekki á sig fá,“ sagði Már í samtali við sunnlenska.is.

Eftir hádegi verður fjölskyldudagskrá í bæjargarðinum en hátíðinni lýkur í kvöld með sléttusöng og flugeldasýningu og dansleikjum í tjaldi í bæjargarðinum og í Hvítahúsinu.

Fyrri greinMenningin blómstrar á Sólheimum
Næsta greinÍslandsteppið slegið á milljón