Selfyssingar létu rigninguna ekki stöðva sig þegar boðið var upp á árlegt morgunverðarhlaðborð í hátíðartjaldi í miðbænum í morgun. Hátíðin Sumar á Selfossi er haldin um helgina.
Það eru Knattspyrnufélag Árborgar og Sveitarfélagið Árborg sem bjóða til morgunverðarins í samvinnu við fjölmörg fyrirtæki í bænum sem gefa vörur sínar. Vel á fjórða þúsund manns mættu í morgunverðinn í morgun og er það svipuð mæting og vanalega, þó að veðrið leiki ekki við Sunnlendinga í dag.
Dagskráin heldur áfram eftir hádegi en vegna veðurs hefur fjölskyldudagskráin verið flutt inn í hátíðartjaldið og ætti ekki að væsa um fólk þar, enda tjaldið hátt í 2.000 fermetrar.
Í kvöld er svo hinn árlegi Sléttusöngur með Ingó Veðurguð (sem þó er ekki ábyrgur fyrir veðrinu) og flugeldasýning og Selfyssingar og gestir þeirra dansa svo inn í nóttina en í hátíðartjaldinu verða Raggi Bjarna, Þorgeir Ástvaldsson og Þorvaldur „Á sjó“. Skítamórall heldur uppi fjörinu í Hvítahúsinu.