Selfyssingar unnu sinn annan leik í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld þegar þeir sóttu Framara heim á þjóðarleikvanginn í Laugardal.
Lokatölur voru 0-2 en mörkin skoruðu Viðar Kjartansson úr vítaspyrnu og Joe Tillen bætti öðru við undir lokin gegn sínum gömlu félögum
Fyrri hálfleikur var steindauður en Selfyssingar fengu eina færið undir lok hans. Endre Brenne tók þá aukaspyrnu inn á teig þar sem Viðar náði til boltans en skaut í hliðarnetið.
Viðar bætti um betur strax í upphafi fyrri hálfleiks þegar markvörður Framara braut á honum innan teigs. Vítaspyrna og Viðar fór sjálfur á punktinn og skoraði.
Selfyssingar voru sterkari í seinni hálfleik og Framarar fengu ekki færi, utan einu sinni en þá sáu þeir sjálfir um að bjarga á línu á Selfossmarkinu. Joe Tillen gulltryggði hins vegar sigur Selfoss á 88. mínútu þegar hann átti góðan sprett og skaut að marki, markvörður Fram varði en Joe náði frákastinu og skoraði í autt markið.
Selfyssingar hafa nú sex stig og sitja í sjötta sæti deildarinnar. Næsti leikur liðsins er á heimavelli gegn Grindavík á fimmtudagskvöld.