Frábær stemmning í poppmessu í Selfosskirkju

Það var vel mætt og góð stemmning í kvöldmessu í Selfosskirkju í gærkvöldi þar sem léttleikinn var í fyrirrúmi.

Gærdagurinn markaði upphafið að safnaðarstarfi vetrarins í Selfosskirkju og sagði sr. Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur, í samtali við sunnlenska.is að dagurinn hafi verið mjög góður.

„Um morguninn var fjölskyldumessa þar sem mættu 200 manns og um kvöldið mættu um 150 manns. Kvöldmessurnar hafa verið í nokkur ár og byrjuðu hjá séra Óskari. Þær hafa verið misvel sóttar en við reynum einmitt að brjóta alveg upp hefðbundið messuform og vera með léttari tónlist sem er ekki endilega neitt tengt kirkjutónlist heldur lífinu almennt,“ segir Guðbjörg.

Mjög góður rómur var gerður að tónlistarflutningnum í gær, en þar komu fram félagarnir Hreimur Örn Heimisson, Benedikt Brynleifsson og bræðurnir Árni Þór og Sigurður Einar Guðjónssynir.

„Mætingin var góð í gærkvöldi og stemmningin frábær. Kirkjugestum finnst þetta spennandi og síðan eru fermingarbörnin byrjuð að hamast við að safna stimplum fyrir messur en þau þurfa að mæta í tíu messur yfir veturinn,“ segir Guðbjörg.

Hún bætir við að oft sé mikið fjör í kirkjunni á þessum kvöldum en stundum sé stemmningin lágstemmdari, enda fari það eftir tónlistarfólkinu.

„Við höfum oft reynt að ná í heimafólk og mega áhugasamir endilega setja sig í samband við okkur. Síðan hafa verið þekktari nöfn inn á milli en það kemur líka til út af kostnaði, enda erum við ekki að borga tónlistarfólkinu mikið, en reynum að sýna viðleitni með smá borgun,“ segir Guðbjörg.

Næsta kvöldmessa verður sunnudaginn 9. október en kvöldmessur og fjölskyldumessur verða einu sinni í mánuði yfir vetrartímann.


sunnlenska.is/Friðgeir Bergsteinsson

Fyrri greinLeigjandi réðist á leigusala sinn
Næsta greinLeitað að nafni á göngustíginn