Nýverið fór Fjallkonan að bjóða upp á lífrænar matvörur í lausasölu en fólk getur komið með sitt eigið ílát til að setja matvöruna í.
„Okkur finnst frábært að geta boðið upp á matvöru í lausu, bæði er það hagstæðara og við spörum plastið,“ segir Dagmar Una Ólafsdóttir, annar eigandi verslunarinnar Fjallkonunnar á Selfossi.
Góðar vörur á frábæru verði
„Fólk getur líka komið með sínar eigin umbúðir, til dæmis bréfpoka, krukkur eða box og fyllt á ef það kýs. Þannig gengur umbúðalaus verslun fyrir sig. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og fólk er mjög hrifið af þessu enda eru þetta góðar vörur á frábæru verði, lífrænar og gómsætar,“ segir Dagmar Una og bætir því við að það standi til að auka vöruúrvalið enn frekar ef vel gengur.
„Í lausu erum við með lífrænar döðlur og döðlubita, trönuber, og kókoshnetuflögur. Þurrkuðu ávextirnir eru góð viðbót í lífrænu flóruna okkar hér í versluninni. Einnig erum við með lífræn krydd, fræ og fullt af dásamlega góðum lífrænum olíum sem bæta og kæta.“
Fjallkonan sérhæfir sig í hreinni og góðri matvöru beint frá býli. „Við erum með nauta-, lamba- og grísakjöt og svo erum við með grænmetismarkað hér á sumrin með íslensku grænmeti. Við erum líka með lífræna ávexti og grænmeti allt árið. Einnig bjóðum við uppá gott úrval af sælkeraostum, salami, pasta, súkkulaði og allt sem hugurinn girnist,“ segir Dagmar Una sem rekur verslunina ásamt Maríu Auði Steingrímsdóttur.
Upplifun fyrir hópa í Fjallkonunni
„Við fáum mikið til okkar af bústaðafólki úr Grímsnesinu sem kemur og gerir vel við sig með góðu kjöti á grillið og osta fyrir helgina. Eyja- og Víkurmenn eru einnig duglegir að versla við okkur og fólk sem tekur sér rúnt frá Reykjavík til að kíkja og versla í Fjallkonunni,“ segir Dagmar.
„Við tökum einnig á móti hópum eins og vinkonuhópum, gönguhópum og saumaklúbbum sem koma til okkar í allskonar sælkerasmakk. Þá erum við búnar að undirbúa osta, salami, salat, hráskinku og allskonar góðgæti fyrir þær. Þetta hefur reynst vel og fólk hefur gaman af þessari upplifun,“ segir Dagmar Una að lokum.