
Selfyssingar og nærsveitungar kvöddu jólin með glæsilegri þrettándagleði í kvöld. Það viðraði vel til brennuhalds og flugeldasýningar enda var mikið fjölmenni á svæðinu.
Farin var fjölmenn blysför frá Tryggvaskála að brennustæði við tjaldstæði Gesthúsa þar sem kveikt var í þrettándabálkesti. Björgunarfélag Árborgar ásamt Ungmennafélagi Selfoss sáu svo um glæsilega flugeldasýningu af Fjallinu eina.
Bræðurnir þrettán úr Ingólfsfjalli voru að sjálfsögðu á svæðinu ásamt tröllum og öðru hyski úr fjallinu og kvöddu þeir krakkana á Selfossi áður en haldið var til fjalla.




