Selfoss varð í kvöld fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta með stórsigri á HK í átta liða úrslitunum í Set-höllinni á Selfossi í kvöld.
Gestirnir byrjuðu betur og komust í 2-4 en þá tóku Selfyssingar öll völd og héldu þeim til leiksloka. Staðan í hálfleik var 18-13 og leiftrandi sóknarleikur liðsins hélt áfram í seinni hálfleik en lokatölur leiksins urðu 36-27.
Katla María Magnúsdóttir átti stórleik fyrir Selfoss, skoraði 14/6 mörk og sendi 3 stoðsendingar. Rakel Guðjónsdóttir skoraði 7 mörk, Arna Kristín Einarsdóttir og Roberta Stropé 5, Tinna Soffía Traustadóttir 2 og Hulda Hrönn Bragadóttir 2. Ásdís Þóra Ágústsdóttir átti sömuleiðis frábæran leik, var sterk bæði í vörn og sókn en hún skoraði 2 mörk og skapaði 12 færi fyrir liðsfélaga sína, þar af átti hún 6 stoðsendingar.
Þá er ótalinn hlutur Corneliu Hermansson sem átti góðan leik í marki Selfoss, varði 13/2 skot og var með 36% markvörslu.
Bikarúrslitahelgin fer fram 15.-18. mars. Átta liða úrslitunum lýkur í þessari viku en þar mætast Víkingur-Haukar, Fram-Valur og Stjarnan-ÍBV.