Skógræktarfélag Selfoss bauð gestum út í Fremri-Laugardælaeyju í morgun, í tilefni af 70 ára afmæli félagsins.
Bátaflokkur Björgunarfélags Árborgar sá um að ferja gesti yfir en hátt í hundrað gestir nýttu tækifærið til þess að skoða eyjuna og þáðu kleinur og kókómjólk í afmælisveislunni.
Tvö af elstu trjám Íslands vaxa í eyjunni
Í Fremri-Laugardælaeyju vaxa tvö merkileg silfurreynitré og eru þau á meðal elstu trjáa á Íslandi. Örn Óskarsson, formaður Skógræktarfélags Selfoss, þekkir sögu þeirra:
„Guðmundur Guðmundsson héraðslæknir í Laugardælum er sagður hafa plantað þessum trjám um 1890, hvort það var hann eða vinnumenn á hans vegum. Þetta eru ein elstu tré á landinu, það eru eldri tré á Möðruvöllum og silfurreyninum í Garðastræti í Reykjavík var plantað fyrr, en kannski hann úr sömu sendingu og voru hér í Laugardælum,“ sagði Örn í samtali við sunnlenska.is. Trén virðast dafna vel í eyjunni og gera það vonandi áfram en silfurreynitré geta orðið 400 ára gömul.
Og Örn var ánægður með hvernig heppnaðist til með daginn. „Já, þetta er alveg frábært að geta boðið fólki hingað. Þetta er eitthvað sem mætti vera árvisst í september, það er ekki gerlegt fyrr um sumarið vegna fuglavarps sem við viljum ekki trufla. Það er margt að skoða hérna, fjölbreyttur gróður, bæði tré og lággróður. Yfir sumarið verpa hér endur og gæsir, svartbakur verpir ofan á eyjunni og auðvitað eru hér spörfuglar líka. Þannig að þessi eyja er mikil náttúruperla,“ bætir Örn við.
Alltaf þörf á nýliðum
Úr Fremri-Laugardælaeyju er gott útsýni yfir í Hellisskóg, sem hefur verið vinnusvæði skógræktarfélagsins undanfarin 36 ár og er góður minnisvarði um starf félagsins. Hvað eyjarnar á Ölfusá varðar þá plantaði Skógrækarfélagið þar upphaflega á sjöunda áratugnum áður en Rotaryklúbbur Selfoss tók við og gróðursetti árlega í Fremri-Laugardælaeyju frá því fyrir 1980 og svo á síðari árum í Efri-Laugardælaeyju.
Félagsmenn í Skógræktarfélagi Selfoss eru nú um 140 og segir Örn formaður að mikil þörf sé fyrir nýliðum í félagið. Auk hans eru í stjórn þau Snorri Sigurfinnsson, Hermann Ólafsson, Björgvin Eggertsson og Hlíf Böðvarsdóttir.