Sunnlendingurinn Kamilla Sigurðardóttir er konan á bak við Share heilsuvörurnar sem hafa heldur betur slegið í gegn hjá Íslendingum síðan þær komu á markaðinn í fyrra.
Share heilsuvörurnar eru annars vegar japönsk apríkósa og hinsvegar asískt pomelo grapealdin. Hvort tveggja er gerjað í 30 mánuði og notar fólk það til inntöku til að hreinsa ristilinn og bæta meltinguna. Vörurnar hafa reynst fólki það vel að meltingarlæknar eru farnir að mæla með vörunum við sjúklinga sína.
Þegar blaðamanni sunnlenska.is barst það til eyrna að það væri ung kona frá Þorlákshöfn sem væri að flytja inn þessar margrómuðu vörur þá mátti hann til með að slá á þráðinn til hennar og heyra hvernig þetta hafi allt saman byrjað.
Fór lítið útaf hótelherberginu fyrstu dagana
Kamilla kynntist Share á ferð sinni um Kaupmannahöfn árið 2021. „Ég og maðurinn minn höfum alltaf verið mikið fyrir heilsu og ákváðum að skella okkur í nálastungur rétt hjá hótelinu okkar. Konan þar rétti okkur einn kassa af Pomelozzini og einn poka af Share Original og sagði okkur að borða þetta á hverjum degi, þetta myndi hjálpa okkur,“ segir Kamilla í samtali við sunnlenska.is.
„Ég hugsaði mig nú ekki tvisvar um og byrjaði bara strax, tók reyndar aðeins of mikið inn til að byrja með og fór lítið útaf klósettinu á hótelherberginu fyrstu dagana, en það var ekki aftur snúið og ég hef tekið inn Share á hverjum degi síðan. Mér leið svo vel og ég fann alveg að þetta voru einhverjir töfrar.“
Var fljót að tryggja sér einkaréttinn á íslenskan markað
Kamilla segir að hún hafi farið aftur til konunnar og keypt meira af vörum. „Ég pantaði sendingu til Þýskalands þar sem ég átti aðsetur þá og bað um að fá að hitta þann sem stæði á bakvið þessa snilld og það var svo heppilegt að hún var einmitt stödd í Kaupmannahöfn á þessum tíma á heilsusýningu sem stóð þá yfir.“
„Hún er frá Sviss og fyrirtækið líka og við smullum einhvern veginn bara saman sem vinkonur, erum ótrúlega líkar. Við fórum út að borða og ég skrifaði strax undir samninga og var því búin að tryggja mér einkarétt á íslenskan markað. Ég byrjaði þó ekki að flytja inn Share til Íslands fyrr en í byrjun árs 2023. Ég ferðaðist mjög mikið á þessum tíma og var farin að selja Share í öðrum löndum líka svo það var ekki tími fyrr.“
„Þetta gerðist allt mjög snöggt, stundum er maður bara leiddur áfram í lífinu og þetta er eitt af því sem að átti klárlega að gerast. Þarna var ég nýbúin að klára mastersnám í lögfræði og fór svo í eitthvað allt annað, en ég get nýtt mér námið mikið í öllu sem að ég geri sem sjálfstæður atvinnurekandi.“
Vinsældirnar uxu hratt
Sem fyrr segir byrjaði Kamilla að flytja inn Share í byrjun árs 2023. „Þá fékk ég tvo stóra kassa af vörum og byrjaði bara smátt. Ég fékk móður mína til að senda út fyrir mig, sem hún auðvitað gerði, en svo þegar salan varð meiri þá fóru vörurnar í vöruhús og salan byrjaði fyrir alvöru síðastliðið vor.“
„Þetta er ný vara á Íslandi en hefur vaxið hratt. Viðtökurnar hafa verið alveg gríðarlega góðar, margir bíta á og aðrir ekki, en mér finnst íslenskur markaður mjög opinn fyrir svona nýjungum og þá sérstaklega þar sem að Share er bara 100% náttúrulegur ávöxtur. Það spyrst fljótt út hversu vel þetta virkar,“ segir Kamilla og bætir því við að hún hafi líka gefið prufur. Það sé hennar markaðssetning. „Fólk verður að prófa vöruna til þess að vita hvað allir hinir eru að tala um.“
Viðtökur lækna komu á óvart
En átti Kamilla von á þessum gríðarlega góðu viðtökum sem Share hefur fengið á Íslandi? „Já og nei. Ég átti alveg von á því, þar sem ég hef samanburðinn frá öðrum löndum og flestir sem prófa koma til baka. Það er samt allt öðruvísi á Íslandi, viðtökurnar eru mikið skemmtilegri. Fólk er mikið að segja manni sögur og hafa samband og hrósa vörunni mikið. Viðtökurnar eru hraðari og það er rosalega fljótt að fréttast þegar það kemur eitthvað svona nýtt inn.“
„En maður er alltaf að læra og sjá meira og meira hvað þetta er stórkostleg vara og íslenskur markaður verður alltaf svona minn staður og ég elska hvað Íslendingar taka vel í vöruna. Viðtökur lækna komu mér mest á óvart en mér finnst alveg innilega frábært hvað hjúkrunarfræðingar og læknar eru opnir fyrir þessu.“
Aðspurð hvort hún hafi kynnt vörurnar eitthvað sérstaklega fyrir meltingarlæknum segir Kamilla að þeir hafi frétt af vörunum sjálfir. „Fyrst hafði samband við mig hjúkrunarfræðingur sem var mjög áhugasöm, ég gaf henni prufur til að dreifa á meltingarlækna sem að hún vann með og það voru allir mjög ánægðir. Mínir viðskiptavinir hafa farið til meltingarsérfræðinga og sagt þeim sína reynslu og þeir frétt það þannig og svo hefur fólk keypt hjá mér eða sent mér tölvupóst og verið að byrja á Share af læknisráði.“
100% náttúrulegt
Kamilla segir að Share sé fyrir allan aldur. „Ég sjálf borðaði Share og drakk Aquadoro þegar ég var ólétt og með barn á brjósti og gaf syni mínum smá smakk af Share Original apríkósunni fyrst þegar hann var átta mánaða. Share er 100% náttúrulegur ávöxtur, gerjaður í 30 mánuði og fylgir öllum þeim stöðlum gerjunar sem þarf til að vera heilbrigðisvottað svo í mínum huga stafar engin hætta af Share fyrir neinn. En ég myndi alltaf mæla með að óléttar konur hafi samband við sína ljósmóður og fái ráð, ég er ekki læknir og ætla ekki að mæla með því.“
„Svo er bara að passa upp á skammtinn og fyrir þau yngstu myndi ég mæla með að taka inn apríkósuna eða aquadoro drykkinn og bara byrja smátt. En fyrir þá eldri eru allar vörurnar góðar en byrja líka bara á að taka bita og bita á kvöldin fyrir svefn og sjá hvert það leiðir, við erum öll svo misjöfn og líkaminn okkar getur brugðist mismunandi við gerjaða ávextinum,“ segir Kamilla að lokum.
Hægt er að nálgast Share vörurnar í gegnum heimasíðuna þeirra. Einnig eru vörurnar seldar í Fræinu Fjarðarkaupum og Leanbody Glæsibæ. Rétt er að leiðrétta þann misskilning sem virðist ganga á milli fólks að vörurnar eru ekki seldar í Bónus Hveragerði.