„Frábært tækifæri til þess að sjá hvernig sveitalífið fer fram“

Margét Hrund Arnarsdóttir ásamt foreldrum sínum þeim Berglindi Bjarnadóttur og Arnari Bjarna Eiríkssyni. Ljósmynd/Aðsend

Sunnudaginn 18. ágúst mun fjölskyldubúið í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi opna býlið sitt fyrir gestum í tilefni af Beint frá býli deginum.

Þetta er annað árið í röð sem Beint frá býli dagurinn er haldinn en þá eru uppákomur í öllum landshlutum og er Gunnbjarnarholt fulltrúi Suðurlands í ár.

Þekktasta afurð Gunnbjarnarholts er án efa Hreppamjólkin, sem er gerilsneydd og ófitusprengd kúamjólk. Hreppamjólk er seld í lausu í sjálfsala í Krónunni Granda, Lindum og Selfossi. Einnig er hægt að fá skyrdrykki, ískaffi, Hreppó súkkulaðimjólk og ís frá Hreppamjólk.

Vörurnar frá Hreppamjólk hafa heldur betur slegið í gegn. Ljósmynd/Aðsend

Beint frá býli dagurinn er er fjölskylduviðburður og matarmarkaður þar sem fólki gefst tækifæri til að versla fjölbreyttar afurðir bænda milliliðalaust.

„Þessi matarmarkaður gefur viðskiptavininum færi á að hitta framleiðendurna og kafa ennþá dýpra í upplýsingar um uppruna varanna sem framleiðendurnir eru að bjóða upp á. Markaðurinn er afar fjölbreyttur, en eins og heitið á viðburðinum gefur til kynna er þetta allt „beint frá býli“. Það er því erfitt að nálgast jafn ferska og nýja matvöru eins og verður í boði á þessum markaði,“ segir Margét Hrund Arnarsdóttir hjá Hreppamjólk í samtali við sunnlenska.is.

Framleiðendum þykir gaman að hitta viðskiptavini sína
Á matarmarkaðnum á sunnudaginn kennir ýmissa grasa. „Það verður hægt að kaupa geita- og kiðaafurðir, fiskiafurðir, mjólkurvörur, ís, heilsuvörur, kjöt, afurðir úr rabarbara og fleiri gómsætar vörur. Að auki verður Joserabúðin með „pop up“ verslun í verslunarhúsnæði Landstólpa í Gunnbjarnarholti, með hestafatnað á rýmingarsölu og gæludýravörur.“

Margrét segir markaðinn vera fyrir alla, unga sem aldna. „Framleiðendum þykir gaman að hitta viðskiptavini sína og segja þeim frá sinni starfsemi og ekki skemmir fyrir hvað allar vörurnar eru gómsætar. Það er auðveldlega hægt að versla sér mat fyrir heimilið en einnig hægt að versla gúrm matvöru fyrir til dæmis gjafakörfu. Á boðstólum verður einnig kökusneið og kaffi eða djús í boði Beint frá býli og því ætti engin að fara svangur heim.“

Hátæknifjós og hoppukastali
Á sunnudeginum verður einnig opið fjós í Gunnbjarnarholti þar sem gestum býðst að skoða hátæknifjós sem tekið var í notkun árið 2018. „Einnig verður hægt að sjá inn í mjólkurvinnslu Hreppamjólkur í gegnum rúður en nýverið tókum við í notkun heila pökkunarlínu sem sér um pökkunarferlið frá a-ö. Fyrir það höfðum við pakkað öllu í höndum. Þetta er því mikil breyting hjá okkur og vonum við að gestir hafi gaman að því að forvitnast um starfsemina.“

Hreppamjólk er er gerilsneydd og ófitusprengd kúamjólk. Ljósmynd/Aðsend

„Að auki verður hoppukastali fyrir börnin og tæki til sýnis sem börn geta fengið að setjast upp í. Það verður líka formleg opnun á söluskúrum Hreppamjólkur en þar er að finna þrjá sjálfsala sem að bjóða upp á allt okkar vöruúrval. Söluskúrar Hreppamjólkur verða mannlausir í framtíðinni, en viðskiptavinurinn afgreiðir sig sjálfur ýmist úr mjólkursjálfsala, íssjálfsala eða mjólkurvörusjálfsala. Það ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi en þarna gefst gestum frábært tækifæri til þess að sjá hvernig sveitalífið fer fram,“ segir Margrét.

Tilbúin að taka á móti miklum fjölda gesta
Margrét segir að þau hafi nokkrum sinnum verið með viðburði þar sem þau hafa opnað fjósið fyrir almenningi en þau hafi þó aldrei haldið jafn stóran viðburð og þennan.

„Við erum vel stemmd fyrir sunnudeginum og tilbúin að taka við miklum fjölda gesta. Undirbúningurinn tekur tíma en flest allt þarf að vinnast rétt fyrir daginn sjálfan. Við erum nokkuð vön að fá til okkar stóra hópa og teljum okkur því aðeins vita út í hvað við erum að fara og hvað fólki finnst áhugavert,“ segir Margrét að lokum.

Facebook-viðburður Beint frá býli dagsins í Gunnbjarnarholti.

Kýrnar í Gunnbjarnarholti. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinGleðidagur í leikskólanum Árbæ
Næsta greinÖlfus, land tækifæranna