Um 40 ungmenni á aldrinum 13 – 25 ára voru saman komin í gærkvöldi þar sem fram fór í annað sinn Ungmennaþing haldið af Ungmennaráði Rangárþings ytra, UngRy.
Ungmennaþingið er vettvangur fyrir ungt fólk í sveitarfélaginu til þess að koma saman og koma skoðunum sínum á framfæri.
Hugrún Pétursdóttir, varamaður í sveitarstjórn, setti þingið og Rebekka Rut Leifsdóttir aðalmaður Rangárþings ytra í Ungmennaráði Suðurlands kynnti hlutverk Ungmennaráðs og sagði um leið frá þeim tækifærum sem hún hefur fengið sem fulltrúi í Ungmennaráði Suðurlands.
Mál málanna á Ungmennaþingi eru umræðuhópar, en þá er skipt upp í fjóra minni hópa sem svo fara á mismunandi umræðustöðvar. Umræðustöðvunum var stýrt af meðlimum Ungmennaráðs sem svo höfðu með sér ritara. Ungmennaráð mun í kjölfarið taka saman helstu niðurstöður umræðuhópanna og kynna fyrir sveitarstjórn.
Snapchat stjörnurnar Eva Ruzo og Hjálmar Örn enduðu svo þingið á því að ræða um sig sem samfélagsmiðlastjörnur, hvernig það gengur fyrir sig ásamt almennum umræðum um lífið.