Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í morgun 34 ára Kópavogsbúa í átta mánaða fangelsi fyrir þjófnað en maðurinn var á reynslulausn.
Hann braust inn í sumarbústað í Útey í Laugardal í maí sl. og stal þar púrtvínsflösku, tveimur bjórdósum og hring úr 18 karata gulli.
Maðurinn játaði á sig þjófnaðinn við þingsetningu málsins en fram kom að maðurinn, sem er fjögurra barna faðir, hafi farið í meðferð eftir innbrotið og sé í fullri vinnu.
Maðurinn á talsverðan sakarferil að baki og hefur hann sætt refsingum, sektum og fangelsi, fyrir umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot og fleiri brot.
Þar sem hann var á reynslulausn bar að dæma óafplánaða sex mánaða og tuttugu og fimm daga refsingu hans með í máli þessu og er honum gerð refsing í einu lagi. Ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna.