Framkvæmdir fyrir ríflega 100 milljónir

Tekinn hefur verið grunnur að nýrri þró undir lýsistanka á athafnasvæði Lýsis í Þorlákshöfn.

Fyrirhugaðar eru miklar framkvæmdir á svæði félagsins sem mun bæta vinnsluaðstöðuna til mikilla muna að sögn Kjartans Ólafssonar, svæðisstjóra Lýsis í Þorlákshöfn.

Gert er ráð fyrir að kostnaður við framkvæmdirnar verði vel yfir 100 milljónir króna og er stefnt að því að ljúka þeim á þessu ári.

Lýsisþróin sem byggð verður er 640 fermetrar, þá er ætlunin að byggja nýtt innmötunarhús sem verður um 300 fermetrar. Sömuleiðis verður keyptur nýr gufuketill og nýtt hús smíðað utan um hann.

„Þetta mun gerbreyta allri aðstöðu hérna bæði í meðhöndlun hráefnis og vinnuaðstöðu starfsfólks. Auk þess verður farið mun betur með allt hráefni og allt verður skilvirkara,“ sagði Kjartan í samtali við Sunnlenska fréttablaðið en áhersla er á að sem mest af starfseminni verði innandyra.

Fyrri greinStefna á fyrstu par 6 golfholuna
Næsta greinSökk á 51 sekúndu