Framkvæmdir eru hafnar að nýju við verslunar- og skrifstofuhúsnæði við Suðurlandsveg á Hellu eftir að eigendur þess náðu samningum við banka og verktaka um fjármögnun og greiðslur vegna frágangs á húsinu.
Gunnsteinn Ómarsson sveitarstjóri Rangárþings ytra er ánægður með að framkvæmdir séu loks hafnar, en upprunalega stóð til að húsnæðið yrði tekið í notkun fyrir réttu ári.
Framkvæmdaraðilar áttu hinsvegar í erfiðleikum með fjármögnun sem varð til þess að verktaki hætti framkvæmdum þar í vetur þar sem greiðslur hættu að berast.
Gunnsteinn segir að nú verði lögð áhersla á að fá fleiri rekstraraðila í húsið til að tryggja rekstur þess. Ætlað er að í húsinu verði verslun Krónunnar, bakarí, skrifstofur sveitarfélagsins og fleiri þjónustuaðila.