Framkvæmdir við nýbyggingu grunnskólans á Stokkseyri eru að hefjast aftur en þær stöðvuðust um síðustu áramót.
Sveitarfélagið hefur gengið frá samningi við Selós, sem annast smíði og uppsetningu innréttinga, og er fyrirtækið að hefja störf í skólanum á nýjan leik.
Framkvæmdir stöðvuðust við bygginguna um sl. áramót þegar aðalverktakinn, Tindaborgir ehf., hætti vinnu við skólann vegna fjárhagserfiðleika. Í framhaldinu leitaði sveitarfélagið til tryggingafélags Tindaborga vegna verktryggingar upp á rúmar 47 milljónir króna.
Til stóð að tryggingafélagið myndi semja við undirverktaka um framkvæmd verksins og stýra verkinu til loka þess, en rétt fyrir páska lá fyrir að ekki yrði af því.
Tryggingafélagið greiddi bótafjárhæðina beint til sveitarfélagsins, sem hefur fengið Verkís til að annast byggingastjórn.
Á síðustu vikum hefur verið unnið að frekari úttektum á stöðu verksins og samningagerð við undirverktaka um þá verkþætti sem eru eftir. Áætlanir gera ráð fyrir því að unnt verði að ljúka verkinu fyrir tryggingaféð og geymslufé vegna verksins sem er í vörslu sveitarfélagsins.