Framkvæmdir ganga vel við Hjálparfoss í Þjórsárdal þar sem í smíðum eru tröppur og pallar fyrir gesti sem koma til að skoða fossinn og umhverfi hans.
Eins og sunnlenska.is greindi frá á dögunum verða smíðaðir veglegir gangstígar og útsýnispallar á svæðinu sem liggur að fossinum og ætti svæðið því að þola betur sívaxandi straum ferðamanna.
Við hönnun mannvirkjanna var leitast við að búa til leiðir og útsýnisstaði með þeim hætti að fólk gengi sem minnst á gróðrinum. Reynslan er sú annars staðar að ef mannvirki sem þessi eru vel gerð og skýrt afmörkuð er lítið um traðk utan þeirra. Langstærstur hluti ferðamanna haldi sig á afmörkuðum gönguleiðum.
Um hönnun sáu Marey arkitektar og teiknistofan Steinsholt sf. Verktakinn sem vinnur verkið við Hjálparfoss er Þrándarholt sf., fyrirtæki bræðranna Ingvars Þrándarsonar, húsasmíðameistara og Arnórs Hans Þrándarsonar húsasmiðs.
Í frétt á heimasíðu Skógræktar ríkisins kemur fram að ef tíðin leyfir er útlit fyrir að verkinu verði lokið í nóvembermánuði.