Framkvæmdir hefjast við fjölnota íþróttahús í Árnesi

Unglingadeild Þjórsárskóla tók fyrstu skóflustunguna ásamt fulltrúum Umf. Skeiðamanna og Umf. Gnúpverja. Ljósmynd/Skeiðgnúp

Fyrsta skóflustungan að nýju fjölnota íþróttahúsi í Árnesi var tekin síðastliðinn miðvikudag við mikinn fögnuð. Unglingadeild Þjórsárskóla, sem er jafnframt fyrsti bekkurinn sem klárar skólagöngu sína í Þjórsárskóla og verður elsti árgangur skólans í þrjú ár, tók skóflustunguna ásamt fulltrúum Ungmennafélags Skeiðamanna og Ungmennafélags Gnúpverja.

Um er að ræða eina stærstu framkvæmd í sögu Skeiða- og Gnúpverjahrepps sem mun gjörbylta aðstöðu til íþróttaiðkunar ásamt því að skapa forsendur fyrir samfellu í skóla, frístunda og íþróttastarfi. Íþróttahúsið verður 3.618 fermetrar að stærð og í því verða, auk íþróttasals; búningsklefar, matsalur, skrifstofuaðstaða og líkamsræktaraðstaða, ásamt því að gert er ráð fyrir að byggð verði sundlaug við húsið.

Eftir athöfnina var gestum boðið upp á kaffi í Þjórsárskóla þar sem hægt var að sjá þær breytingar sem gerðar hafa verið þar innanhúss í sumar, sem eru talsverðar.

Íþróttahúsið úr lofti horft í suðaustur. Tölvumynd/Magnús Arngrímur
Fyrri greinMeð blýantinn að vopni
Næsta greinHraustir menn og Elvis í Hvolnum