Framkvæmdir stöðvaðar eftir kæru brimbrettafólks

Brimbrettafólk hefur í vikunni staðið fyrir friðsælum mótmælum á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði við Þorlákshöfn. Ljósmynd/Víðir Björnsson

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur ákveðið að stöðva framkvæmdir við fyrirhugaða landfyllingu við Suðurvararbryggju í Þorlákshöfn, tímabundið á meðan nefndin tekur fyrir kæru sem barst frá Brimbrettafélagi Íslands.

Bæjarstjórn Ölfuss samþykkti að veita framkvæmdaleyfi fyrir landfyllingunni á fundi sínum þann 30. janúar. Síðastliðinn mánudag lagði Brimbrettafélag Íslands fram kvörtun við úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem þess er krafist að leyfið yrði fellt úr gildi og að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið er til úrskurðar.

Félagið hefur bent á þær alvarlegu afleiðingar sem framkvæmdin mun hafa á brimbrettasvæðið við Þorlákshöfn, einkum Aðalbrotið, sem er einstakt öldusvæði á landsvísu. Í kæru sinni bendir brimbrettafélagið á að þær breytingar sem landfyllingin hefur í för með sér séu óafturkræfar og muni hafa áhrif á umhverfi og útivistarmöguleika í Þorlákshöfn til frambúðar.

Í fréttatilkynningu frá Brimbrettafélagi Íslands er þessari bráðabirgðaákvörðun úrskurðarnefndarinnar fagnað og einnig kemur þar fram að íbúar í Þorlákshöfn hyggist hefja undirskriftasöfnun til að framkvæma íbúakosningu varðandi framkvæmdina og verndun þessa útivistarsvæðis.

Fyrri greinÝmislegt á döfinni í ML
Næsta greinTveimur styrkjum úthlutað og Menntaverðlaunin afhent