Vegagerðin og Íslenskir aðalverktakar hf. skrifuðu í dag undir samning um gerð fyrsta áfanga við breikkun Hringvegar á milli Hveragerðis og Selfoss.
ÍAV hf. átti lægsta tilboðið í verkið og hljóðaði það upp á 1.361 milljón króna. Verkinu skal lokið næsta haust eða 15. september.
ÍAV mun þegar hefjast handa við verkið enda stuttur verktími og hefur í raun þegar hafið undirbúning að því að koma upp aðstöðu á verkstað.
Það voru Óskar Örn Jónsson forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar og Sigurður Ragnarsson forstjóri Íslenskra aðalverkta hf. sem skrifuðu undir verksamninginn í húsakynnum Vegagerðarinnar í dag.
Verkið Gljúfurholtsá – Varmá er 1. áfangi af verkinu Hringvegur(1) Biskupstungnabraut – Hveragerði. Þessi hluti felst breikkun Hringvegar ásamt gerð nýrra gatnamóta við Vallaveg og Ölfusborgaveg. Heildarlengd kaflans er um 2,5 km. Til framkvæmdanna telst einnig gerð nýrra hliðarvega sem tengjast nýjum vegamótum, annars vegar Ölfusvegar frá Ölfusborgavegi að Hvammsvegi og hins vegar Ásnesvegi frá Vallavegi að Ásnesi. Inni í verkinu er einnig breikkun brúar yfir Varmá og undirgöng austan Varmár fyrir gangandi og ríðandi.
Einnig eru innifaldar breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja sem og nýlagnir og landmótun auk annarra þátta sem nauðsynlegir eru til að ljúka verkinu.