Framkvæmdum við nýja aðstöðu Byggðasafns Árnesinga lýkur í vor

Lilja og Lýður undirrituðu samninginn. Ljósmynd/Aðsend

Í vor flytur Byggðasafn Árnesinga innri aðstöðu sína á Eyrarbakka úr Hafnarbrú 3 í Búðarstíg 22.

Búðarstígur 22 er að jafnaði nefnt Alpan-húsið en að sögn Lýðs Pálssonar, safnstjóra, væri nú upplagt að finna byggingunni nýtt nafn í takt við nýtt hlutverk.

Byggðasafnið keypti húsnæðið árið 2019 fyrir innra safnastarf, skrifstofur, varðveisluaðstöðu, fræðslurými og sýningarsal. Síðan húsnæðið var keypt hefur verið unnið að framkvæmdum og stefnt að verklokum í vor.

Grímur Jónsson verktaki og menn hans, ásamt undirverktökum, hafa undanfarna mánuði unnið að viðgerðum og aðlögun húsnæðis að nýju hlutverki. Framkvæmdum lýkur í apríl.

Í síðustu viku var Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarráðherra, stödd á Eyrarbakka og skrifaði fyrir hönd ráðuneytisins undir samning við Byggðasafn Árnesinga um 25 milljón króna stofnstyrk til safnsins vegna kaupa og framkvæmda við Búðarstíg 22 á Eyrarbakka. Styrkur þessi á sér stoð í safnalögum þar sem viðurkennd söfn geta sótt um stofnframlag til uppbyggingar húsnæðis. Ráðherra skoðaði húsið og síðan skrifuðu hún og Lýður safnstjóri undir samninginn.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinSafnað fyrir börn og fjölskyldu Freyju
Næsta greinBrotinn kofi á Suðurstrandarvegi