Stefnt er að nýframkvæmdum við hafnarmannvirki í Þorlákshöfn upp á rúmlega 2 milljarða króna á næstu tíu árin. Langstærsti hluti þessara áætluðu framkvæmda er vegna skjólgarða og dýpkunar.
Þessar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu sem Hafnasamband Íslands hefur látið taka saman um framkvæmda- og viðhaldsþörf hjá íslenskum höfnum á komandi árum.
Sjötti stærsti hafnarsjóður landsins
Í skýrslunni kemur fram að Hafnarsjóður Þorlákshafnar sér sjötti stærsti hafnarsjóður landsins. Þorlákshöfn er flokkuð sem stór fiskihöfn en einnig þjónustar hún Smyril Line í farmflutningum og Herjólf þegar ekki er hægt að sigla til Landeyjarhafnar yfir vetrartímann.
Hafnarsjóður Þorlákshafnar er að fullu í eigu Sveitarfélagsins Ölfuss. Tekjur sjóðsins byggðust lengi vel á tekjum af aflagjöldum en síðustu ár hafa tekjur sjóðsins af vörugjöldum aukist verulega og námu þær rúmlega þriðjungi af heildartekjum sjóðsins árið 2020.
1,5 milljaður króna í skjólgarða og dýpkun
Á næstu 10 árum er gert ráð fyrir nýframkvæmdum í Þorlákshöfn er nema rúmlega tveimur milljörðum eða 2.090 milljónum króna. Tæplega 1.500 milljónum verður varið í skjólgarða og dýpkun, 340 milljónum í nýja viðlegukanta, 190 milljónum í hafnarbakka/uppland, 50 milljónum í rafbúnað vegna orkuskipta, 30 milljónum í flotbryggjur og 20 milljónum króna í landfyllingar. Vegagerðin hefur samþykkt fjárveitingu til Þorlákshafnar er nemur tæpum 1,7 milljarði króna árin 2021-2024.