Framleiðsla liggur niðri í Plastiðjunni

Starfsemi Plastiðjunnar hf við Gagnheiði á Selfossi hefur legið niðri frá því eldur braust út í SET í hádeginu í gær. Reykurinn lagðist yfir Plastiðjuna og barst inn í húsnæðið.

Reykjarmökkurinn lagðist beint yfir húsnæði Plastiðjunnar sem framleiðir umbúðir fyrir fjölmarga matvælaframleiðendur. Reykurinn smaug inn um glugga á húsinu og þarf að tæma lager Plastiðjunnar og þrífa hús og vélbúnað.

„Við erum að framleiða vörur til matvælaframleiðslu og leggjum því mikla áherslu á að húsnæðið verði hreinsað vel og vandlega. Lager fyrirtækisins verður tæmdur og við erum að bíða eftir niðurstöðu úr greiningu á honum. Ef þörf er á munum við flytja inn inn nýtt hráefni erlendis frá,“ sagði Axel Óli Ægisson, framkvæmdastjóri Plastiðjunnar, í samtali við sunnlenska.is.

Starfsmenn Plastiðjunnar byrjuðu strax í morgun að þrífa vélar fyrirtækisins og síðdegis í dag kom hópur hreingerningafólks á svæðið til þess að þrífa húsnæðið og fleira. Axel Óli á von á því að því verki muni ljúka um helgina.

„Við gerum okkur ekki grein fyrir því hversu mikið tjónið er en við erum að fara yfir málin með tryggingafélagi okkar, Sjóvá, sem hefur staðið sig vel í þessu verkefni. Þetta er umtalsverð röskun hjá okkur en allt kapp er lagt á að verksmiðjan verði starfhæf sem fyrst, um leið og við förum eftir ítrustu gæðakröfum hvað varðar hreinsun á húsnæðinu og vélunum.“

Fyrri greinViðar Arason: Við erum ávallt á vakt
Næsta greinNýir Lionsfélagar í Hveragerði