Á bænum Fossi í Hrunamannahreppi rækta skötuhjúin Guðleif Erna Steingrímsdóttir og Viðar Benónýsson iðnaðarhamp, sem er síðan nýttur í hampte.
Hampte er talið hafa margvíslegan ávinning fyrir líkamann. Það róar til að mynda taugakerfið og minnkar bólgur og verki – svo fátt eitt sé nefnt.
„Okkur hafði lengi dreymt um að rækta eitthvað en komumst aldrei að niðurstöðu fyrr en við römbuðum á það að fara rækta hamp,“ segir Guðleif Erna í samtali við sunnlenska.is.
Hún segir að það hafi í raun tekið mjög stuttan tíma að koma hugmyndinni í framkvæmd eftir að hún kviknaði. „Það gekk bara einhvern vegin allt upp. Í apríl 2021 datt okkur þetta í hug og við sáðum svo hampinum 19. maí eða mánuði síðar. Uppskeran er svo í endann á ágúst, byrjun september.“
Amma og afi lánuðu land til ræktunar
Ræktunin hefur gengið ágætlega hjá þeim skötuhjúum. „Það fer auðvitað mikið eftir veðráttu á sumrin. Hampræktun á íslandi er ennþá smá tilraunastarfsemi og við erum enn að reyna að finna þetta fullkomna yrki sem að við viljum rækta. En þangað til erum við að undirbúa jarðveginn og ræktunina aðallega með Finola yrkinu. Við höfum verið með tæpan hálfan hektara sem hefur verið meira en nóg fyrir okkur hingað til. Ef við færum út í meiri framleiðslu þyrftum við vissulega að huga að meira landi.“
Guðleif Erna segir að viðtökurnar hafa verið mjög góðar – bæði við hugmyndinni upphaflega og svo sjálfu hampteinu. Flestir hafi verið mjög áhugasamir. „Fjölskyldan tók strax vel í þetta og fannst þetta mjög spennandi. Sigríður og Hjörleifur, ábúendur á Fossi, eru amma mín og afi, og voru þau strax mjög spennt fyrir því að prófa þetta með okkur og lána okkur land,“ segir Guðleif Erna.
Hampte bara byrjunin
Guðleif Erna og Viðar stefna á að nýta hampinn enn frekar. „Við erum alltaf að hugsa um það hvernig við getum nýtt allan hampinn svo hann nýtist sem best. Það er stefnan að bæta við vörum í framtíðinni. Við ætlum að fara rólega í þetta og prófa okkur áfram. Við höfum haft svolítinn áhuga á að prófa búa til hampsteypu til dæmis.“
„Hampur er mikil nytjavara sem hægt er að nota í mest allt sem þér dettur í hug. Í blómunum á hamp plöntunni eru kannabíóðar sem að kallast CBD. CBD er talið hafa góð áhrif á líkamann, taugakerfið og andlega líðan. CBD hefur meðal annars reynst vel við meðhöndlun á kvíða, þunglyndi, verkjum og bólgusjúkdómum. Einnig eru þeir taldir hafa jákæðáhrif á svefn og einbeitingu.“
Hampurinn getur allt
Það er augljóst að hampurinn hefur fangað hug og hjarta Guðleifar Ernu. „Hampur er mögnuð afurð. Maður er alltaf að læra einhvað nýtt um þessa plöntu og því meira sem maður fræðist um hana sér maður hve einstök plantan er í raun og veru. Hampurinn getur eiginlega bara allt. Hann getur meðal annars verið í fötum, iðnvörum, mat, drykk, áburði, olíum, kremum. Einnig bindur hampurinn mikið kolefni, er endingargóður og er bakteríu og sýkladrepandi af náttúrunnar hendi,“ segir Guðleif Erna að lokum.
Hægt er að nálgast hampteið frá Fossi í Litlu bændabúðinni á Flúðum og í Efsta-Dal.