„Nú er svo komið að framlög hins opinbera til sjúkraflutninga á Suðurlandi duga engan veginn til að reka svo umfangsmikla starfsemi og eru á engan hátt í samræmi við þá miklu aukningu sem hefur orðið í sjúkrafltningum á Suðurlandi.“
Þetta segir Herdís Gunnarsdóttir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands en stofnunin hefur nýlega gefið út skýrslu um stöðu sjúkraflutninga á Suðurlandi.
Hún segir að vegna niðurskurðar og hagræðingar síðustu ára gefa óbreytt fjárframlög til HSU ekkert svigrúm til að bæta við inn í rekstur sjúkraflutninga nema að skera niður í almennri grunnheilbrigðisþjónustu sem stofnuninni ber lagaleg skylda til að veita.
Því þarf að mati Herdísar að bregðast skjótt við og styrkja innviði rekstrar sjúkraflutninganna með fjárframlögum sem eru í samræmi við fjölda útkalla, útkallstíma og umfang verkefna.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að frá árinu 2011 til ársins 2015 hafi heildarfjöldi sjúkraflutninga aukist um fjörutíu og sex prósent, fjöldi bráðaútkalla hafi vaxið um áttatíu og átta prósent, fjöldi millistofnanaflutninga jókst um fimmtíu og tvö prósent og vegalengd ekinna kílómetra á sjúkrabílum jókst um áttatíu og níu prósent á þessu fjögurra ára tímabili.
„Á árinu 2015 var meðal útkallstími sjúkrabíla í heilbrigðisumdæmi Suðurlands tæpar tvær klukkustundir og einn af hverjum sjö sjúkraflutningum er tilkominn vegna útlendinga. Með áframhaldandi vexti í sjúkraflutningum á Suðurlandi samhliða auknum verkefnum og fjölgun ferðamanna mun fjöldi flutninga á árinu 2016 verða á bilinu 3.800 til 4.000 og kostnaður stofnunarinnar mun nema um þrjú hundruð og þrjátíu milljónum króna,“ bætir Herdís við.