Nokkrir framtakssamir eldri borgarar í Vík í Mýrdal tóku sig saman nú í haust er þeir reistu í sjálfboðavinnu sandfoksvarnargirðingu meðfram ströndinni sunnan við kauptúnið.
Tilgangurinn með þessu verki er að vernda samfélagið fyrir ágangi sandfoks í hvössum suðlægum áttum. Vegagerðin og Landgræðsla ríkisins útveguðu efni í girðinguna og gáfu góð ráð en öll vinna eins og fyrr segir var sjálfboðaliðastarf frá þessum áhugasömu eldri borgurum.
Íbúar í Vík fögnuðu því þegar Siglingastofnun árið 2011 byggði sjóvarnargarð til að fanga sandinn úr klóm Ægis og fjaran fór að byggjast upp aftur, enda var ekki annað séð en sjórinn bryti sér leið alveg inn í byggðina. Flestum var einnig ljóst að þegar fjaran byggðist upp mætti búast við sandfoki inn í byggðina og auka þyrfti landgræðslu aðgerðir til að minnka sandfokið.
Á heimasíðu Landgræðslunnar kemur fram að þessir áhugasömu eldri borgarar eigi mikinn heiður skilið fyrir sitt frumkvæði og framtak. Landgræðslan mun svo næsta vor fylgja eftir þessu verki og sá melfræi í sandinn og reyna þannig að hefta enn frekar sandfok inn í byggðina.