Lyktin sem dreifist um Þorlákshöfn vegna fiskþurrkunar hefur ekki farið fram hjá neinum og veldur mörgum íbúum Þorlákshafnar ama. Forsvarsmenn sveitarfélagsins hafa leitað leiða til þess að finna lausn á þessum vanda og nú er hún í sjónmáli.
Í síðustu viku skrifuðu Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss og Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis hf. undir samning vegna tímabundins leyfis fyrir fiskþurrkunarverksmiðju í Þorlákshöfn.
Með þessum samningi samþykkti Lýsi hf. að taka ákvörðun fyrir lok mars 2017 hvort það eigi að flytja starfsemina á nýtt iðnaðarsvæði vestan Þorlákshafnar eða loka verksmiðjunni án frekari uppbyggingar í Sveitarfélaginu Ölfusi.
Í samningnum kveður á að ef ákveðið verður að loka verksmiðjunni eða ákvörðun um flutning liggur ekki fyrir í lok mars 2017 skal Lýsi hf. loka verksmiðjunni eigi síðar en fyrir lok maí 2017. Ef ákveðið verður að flytja starfsemina á nýjan stað vestan Þorlákshafnar verði starfsemi að Unubakka 26 stöðvuð eigi síðar en fyrir lok júní 2018.
Lýsi hf. hefur leyfi til þess að framleiða 40 tonn af hráefni á sólarhring að Unubakka 26 og engin þurrkstarfsemi fer fram í júlí og ágúst en þau ákvæði er einnig að finna í starfsleyfi verksmiðjunnar sem gildir út júní árið 2018.
Ef Lýsi hf. ákveður að flytja starfsemina á nýjan stað mun sveitarfélagið sjá um gatnagerð að viðkomandi lóð, stofnlögn fráveitu og heimila borun eftir köldu vatni á lóðinni. Einnig samþykkir sveitarfélagið að heildargjaldtaka vegna þátta sem snúa að lóðinni verði ekki umfram 20 milljónir króna.
Sumarið 2015 voru áform uppi um að hefja framkvæmdir við nýja verksmiðju í byrjun árs 2016 en vegna erfiðs efnahagsástands í Nígeríu var það sett á bið. Enn ríkir mikil óvissa um framtíðarhorfur markaðarins í Nígeríu og því var Lýsi hf. gefinn frestur til loka mars 2017 að taka ákvörðun um hvort verksmiðjunni verði lokað eða hún flutt á nýjan stað.
Forsvarsmenn Ölfuss eru bjartsýnir og vona að starfsemi Lýsis hf. verði flutt á nýjan stað vestan Þorlákshafnar þar sem hún geti vaxið og dafnað án þess að valda bæjarbúum óþægindum.