Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur samþykkt að að kannaðir verði möguleikar á byggingu og rekstri hafnaraðstöðu fyrir smærri báta í Landeyjahöfn.
Að sögn Ísólfs Gylfa Pálmasonar sveitastjóra er greinilegt að það er áhugi fyrir því að geta verið með litla báta í höfninni og því sé freistandi að skoða möguleika á því áður en verkinu er að fullu lokið.
Í greinargerð sveitastjórnar segir að með byggingu aðstöðu fyrir smærri báta í Landeyjahöfn gefi það byr í uppbyggingu ferðaþjónustu og tengingar hennar milli Vestmannaeyja og fasta landsins. ,,Með því móti aukum við notagildi þessa myndarlega mannvirkis sem Landeyjahöfn er og um leið aukum við gjaldeyrisöflun og verðmætasköpun fyrir land og þjóð,“ segir í greinagerð sveitastjórnarinnar.
Að sögn Ísólfs hafa menn engar mótaðar hugmyndir um kostnað, það fari allt eftir útfærslunni. Ef ráðist verði í að byggja veglega höfn til frambúðar þá myndi hún líklega kosta allt að 70 milljónir króna. Flotbryggja til bráðabirgða gæti hins vegar kostað 3 til 4 miljónir króna. ,,Auðvitað viljum við framtíðarlausn en við erum líka raunsæir,“ sagði Ísólfur Gylfi.