Framtíðarhöfn gæti kostað 70 milljónir

Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur samþykkt að að kannaðir verði möguleikar á byggingu og rekstri hafnaraðstöðu fyrir smærri báta í Landeyjahöfn.

Að sögn Ísólfs Gylfa Pálmasonar sveitastjóra er greinilegt að það er áhugi fyrir því að geta verið með litla báta í höfninni og því sé freistandi að skoða möguleika á því áður en verkinu er að fullu lokið.

Í greinargerð sveitastjórnar segir að með byggingu aðstöðu fyrir smærri báta í Landeyjahöfn gefi það byr í uppbyggingu ferðaþjónustu og tengingar hennar milli Vestmanna­eyja og fasta landsins. ,,Með því móti aukum við notagildi þessa myndar­lega mannvirkis sem Landeyjahöfn er og um leið aukum við gjaldeyris­öflun og verðmætasköpun fyrir land og þjóð,“ segir í greinagerð sveita­stjórnarinnar.

Að sögn Ísólfs hafa menn engar mótaðar hugmyndir um kostnað, það fari allt eftir útfærslunni. Ef ráðist verði í að byggja veglega höfn til frambúðar þá myndi hún líklega kosta allt að 70 milljónir króna. Flotbryggja til bráðabirgða gæti hins vegar kostað 3 til 4 miljónir króna. ,,Auðvitað viljum við framtíðarlausn en við erum líka raunsæir,“ sagði Ísólfur Gylfi.

Fyrri greinÁrborg upp í 2. deild
Næsta greinLaugdælir fá Ármann heima