Síðastliðinn mánudag undirritaði Rótarýhreyfingin á Íslandi samstarfssamning til þriggja ára við Umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið og Landsvirkjun um Stóra plokkdaginn. Hann var fyrst haldinn árið 2018 en á síðasta ári tók Rótarýhreyfingin þátt í að skipuleggja plokk viðburði hjá nokkrum Rótarýklúbbum á landinu. Í kjölfarið var ákveðið að gera daginn að lykil umhverfisverkefni starfsársins.
Landsvirkjun og ráðuneytið hafa frá upphafi stutt Stóra plokkdaginn en með samstarfssamningnum hefur deginum verið tryggt bakland til næstu þriggja ára og með aðkomu Rótarýhreyfingarinnar verður til kraftmikil umgjörð og heildarskipulag á landsvísu.
Stóri plokkdagurinn verður haldinn um allt land sunnudaginn 28. apríl næstkomandi.
Guðlaugur Þór Þórðarson, Ómar Bragi Stefánsson og Jóna Bjarnadóttir sem undirrituðu samninginn, lýstu öll yfir mikilli ánægju með samstarfið og sagði Guðlaugur Þór að þetta verkefni væri gott dæmi um það hvernig almenningur getur látið verkin tala, oft miklu betur en ríkið sjálft.
Með samningnum hefur verið tryggt fjármagn næstu þrjú árin til kynningar og skipulags á þessu fjölmennasta hreinsunarátaki almennings í landinu. Með honum er einnig tryggt að allir geta gert daginn að verkefni hjá sér, fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og einstaklingar geta öll skipulagt viðburði og kynnt þá undir merkjum Stóra plokkdagsins.