Leikskólinn Jötunheimar á Selfossi fékk viðurkenningu frá Brunavörnum Árnessýslu í dag fyrir framúrskarandi vinnu við öryggis- og viðbragðsmál innan leikskólans.
Í dag, 11.2 er 112 dagurinn haldinn hátíðlegur um allt land. Brunavarnir Árnessýslu fengu heimsókn frá eldri deildunum á Jötunheimum í morgun þar sem krakkarnir fengu stutta kynningu á starfsemi slökkviliðsins auk umræðu um neyðarnúmerið 112, eldvarnir heimilisins og mikilvægi reykskynjara. Að því loknu skoðuðu þau sig um í bílasalnum en auk Brunavarna Árnessýslu voru lögreglu- og sjúkrabílar til sýnis.
Eftir hádegi heimsóttu slökkviliðsmennirnir svo yngri deildir Jötunheima með samskonar fræðslu og eldri deildinar fengu.
Við það tækifæri afhenti Haukur Grönli, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, Júlíönu Tyrfingsdóttur, leikskólastjóra, viðurkenningu til leikskólans. Leikskólinn hefur að undanförnu unnið í öryggismálum sínum, m.a. með uppfærðri rýmingaráætlun, rýmingaræfingum og útbúið sérstakar rýmingartöskur sem hanga í neyðarútgöngum hverrar deildar.
Þess má geta að hugleiðingin varðandi hvort börn geti hringt úr snjallsímum í 112 kom frá starfsfólki Jötunheima en sú hugleiðing var birt á Facebook-síðu Brunavarna Árnessýslu eftir fyrirspurn frá leikskólanum og vakti mikla athygli.