Fresía flutt á nýjan stað

Guðný Björk Pálmadóttir, eigandi Fresíu. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Gjafavöruverslunin Fresía á Selfossi hefur flutt sig um set og hefur nú opnað á Austurvegi 1, í sama rými og veitingastaðurinn Vor.

„Nú er komið rúmt ár síðan ég opnaði Fresíu á Eyraveginum í miðjum Covid faraldri. Viðtökurnar voru vonum framar en samkomutakmarkanir höfðu bein áhrif á mig sem og aðra. Einnig hafði það töluverð áhrif þegar miðbærinn opnaði. Ég hélt að ég væri nógu nálægt miðbænum til að ná til þeirra sem þar voru, en svo var ekki raunin,“ segir Guðný Björk Pálmadóttir, í samtali við sunnlenska.is.

„Viðtökur á búðinni og því vöruúrvali sem ég býð upp á voru á þann veg að mér fannst erfið tilhugsun að loka alveg og leitaði því nýrra leiða til að komast í meiri nálægð við nýja viðskiptavini, án þess að það komi niður á þeim sem nú þegar versla við mig.“

Styrkir rekstur beggja aðila
Guðný Björk segir að hana hafi lengi dreymt um að búa til það sem erlendis kallast concept store. „Það er þegar verslun og þjónustu er blandað saman á einn eða annan hátt. Ég hafði því samband við Tómas og Idu á Vor og bar undir þau hugmyndina um að prófa að hafa Vor Veitingar og Fresíu í sama rými. Ég hafði nokkrum sinnum komið inn á Vor og gat séð fyrir mér að þetta gæti verið skemmtilegt saman.“

„Tómas og Ida tóku ótrúlega vel í hugmyndina og úr varð að ég flutti mig til þeirra um miðjan febrúar. Þetta styrkir rekstur beggja aðila og gerir rýmið bæði fallegt, notalegt og lifandi. Það er því ríkt tilefni að kíkja á okkur hingað á Austurveg 1 til að lifa og njóta.“

„Það er ekki komin mikil reynsla á viðtökur ennþá þar sem ég er nýbúin að opna hér. En þetta lofar góðu. Hér næ ég til mun breiðari hóps en ég gerði á Eyraveginum og sýnileikinn er mun meiri.“

Meiri áhersla á sælkeravörur
Ný staðsetning og nýtt concept kalla auðvitað á aðeins breyttar áherslur að sögn Guðnýjar. „Ég mun áfram bjóða upp á mjög sambærilegt vöruúrval og ég var með áður en þó verður lögð meiri áhersla á sælkeravörur og vörur framleiddar hér í nágrenni Selfoss. Það er gaman að geta boðið upp á betra aðgengi að local vörum bæði fyrir heimafólk og ferðamenn.“

„Það er virkilega gaman að vera partur af þessari nýju og glæsilegu stemningu á Selfossi, sem nýi miðbærinn hefur skapað. Ég vona að heimafólk fagni þeirri fjölbreyttu þjónustu sem nú er í boði hér í bæ og leggi sig fram við að nýta hana,“ segir Guðný Björk að lokum.

Fyrri greinÁrborg opnar ábendingagátt
Næsta greinSelfoss enn án stiga