Fréttaannáll 2010 – II

Hér eru rifjaðir upp atburðir sem rötuðu í sunnlenskar fréttir í júlí, ágúst og september árið 2010.

Júlí
Mikill umferðarþungi var á Suðurlandi fyrstu helgina í júlí og meðal annars sóttu á fimmta þúsund ungmenni tónlistarhátíð í Galtalæk. Flestir skemmtu sér fallega þessa helgi en þrír ungir menn syntu þó ölvaðir yfir Hvítá og voru björgunarsveitir ræstar út í kjölfarið. Einhver lenti líka í því að týna öllum fötunum sínum þessa helgina. Jarðneskar leifar Bobby Fischer voru grafnar upp í kirkjugarðinum í Laugardælum og sumarstúlkukeppnin fór fram í Hvítahúsinu. Rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar fann stóran gíg við ósa Markarfljóts og ferðaþjónustuaðilar urðu varir við aukningu eftir að umferð ferðamanna hafði dottið niður eftir eldgosið í Eyjafjallajökli.

Lögreglumenn þefuðu bókstaflega uppi kannabisframleiðslu á Eyrarbakka. Landeyjahöfn var formlega vígð þann 20. júlí og tíu dögum seinna tók Herjólf niðri í höfninni í fyrsta sinn. Stærsta landaverksmiðjan sem lögreglan í Árnessýslu hefur fundið var upprætt í júlí. Bruggararnir, bræður á sjötugsaldri, sluppu með skrekkinn þar sem megnið af gambranum, 800 lítrar, var nær óáfengur. Riða kom upp í Flóahreppi og Íslandsmótið í höggleik í golfi var haldið í Kiðjabergi. Jón í Múla var skattakóngur Suðurlands og Bónus og Hagkaup tilkynntu um nýbyggingu á Selfossi þar sem framkvæmdir áttu að hefjast í haust. Þær eru enn í startholunum.

Ágúst
Fólk var varað við að vera á ferð í Kambalandi í Hveragerði vegna sprengihættu. Fjögurra Hvergerðinga var leitað í byrjun ágúst og stendur sú leit enn yfir. Loksins voru framkvæmdir við Suðurlandsveg í augsýn og Vegagerðin samdi við sunnlenskan verktaka. Nú var skeifan endanlega farin af ferðaþjónustuaðilum eftir gosið.

Ný kattasamþykkt Árborgar var felld úr gildi við mikla gleði kattavina og glæsileg mannvirki voru vígð á Selfossvelli. Skítalykt var af fréttum úr Þingvallasveit. Risavaxin nýbygging BES á Stokkseyri var vígð en Flóamenn fóru mun hóflegri leið. Kylfingurinn Hlynur Geir Hjartarson varð stigameistari Golfsambandsins og Sunnlendingar eignuðust tvo Íslandsmeistara í torfæruakstri. Sveitarfélagið Árborg keypti Björgunarmiðstöð Árborgar á 192 milljónir.

September
Bæjarstjórn Árborgar samþykkti að segja upp samningi við innheimtufyrirtækið Intrum og skömmu síðar var samningi um umhleðslustöð sorps í Sandvíkurhreppi sagt upp. Í sömu viku fékk Árborg aðvörun frá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga. Selfosskonur voru einni vítaspyrnu frá sæti í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu. Vandræðin í Landeyjahöfn byrjuðu fyrir alvöru og hugmyndir um Selfossvirkjun voru kynntar.

Selfyssingar unnu sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í knattspyrnu í 43 ár en meistaraflokkur karla féll úr Pepsi deildinni. Sigurður Daði Friðriksson, björgunarsveitarmaður á Klaustri, vann björgunarafrek í Núpsvötnum. Grímuklæddir þjófar brutust tvisvar inn á Geysi sömu nóttina og hjálparsveitarskátar í Hveragerði tóku formlega í notkun nýja aðstöðu. Eystri-Rangá bar af í laxveiðinni þetta sumarið.

FRÉTTAANNÁLL I / APRÍL-JÚNÍ

FRÉTTAANNÁLL III / OKTÓBER-DESEMBER

MEST LESNU FRÉTTIRNAR 2010

Fyrri greinFeðgarnir fundnir
Næsta greinFréttaannáll 2010 – III