Hér fyrir neðan má sjá samantekt á mest lesnu fréttunum í janúar til júní 2024 á sunnlenska.is. Farið er yfir mest lesnu fréttir hvers mánaðar og neðst má sjá tíu mest lesnu fréttir fyrri hluta ársins 2024.
Í janúar opnuðu Vigfús Blær Ingason og Christine Rae veitingastaðinn Byrja á Selfossi. Árborg seldi Björkurstykkið á 1,2 milljarða króna og Elísabet Björgvinsdóttir komst langt í Idolinu. Þá fjallaði sunnlenska.is um Share heilsuvörurnar sem vöktu mikla athygli.
Í febrúar voru opnuð tilboð í slátt og hirðingu í Hveragerðisbæ, Nettó tilkynnti um opnun nýrrar verslunar á Selfossi og Sveitarfélagið Ölfus setti dósaskúrinn á sölu. Öllu stærri voru fréttirnar af því að Set ehf væri komið í söluferli og til þess að toppa mánuðinn þá fannst dauð hnísa í Víkinni í Ölfusá á Selfossi.
Í mars voru haldnar styrktaræfingar fyrir Anítu Rögnvaldsdóttur og Jón Þorra Zar Jónsson. Lyfjaval tilkynnti fyrirhugaða opnun á Selfossi, ungmenni kveiktu í Hafnartúni á Selfossi, Gísli Freyr Sigurðsson var valinn söngvari Músíktilrauna og heitt vatn fannst á 888 metra dýpi á bökkum Ölfusár.
Í apríl sigraði Lillý Guðbrandsdóttir í Söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin var í fyrsta skipti í Iðu á Selfossi. Manni var ráðinn bani í sumarhúsi á Kiðjabergi í Grímsnesi, stór sinueldur kviknaði í Tjarnabyggð í Sandvíkurhreppi og Jónas Bergmann Magnússon var ráðinn skólastjóri Laugalandsskóla í Holtum. Þá sigraði Selfyssingurinn Bergrós Björnsdóttir stórt CrossFitmót á Mallorca.
Í maí greindist kíghóstasmit hjá grunnskólanema á Selfossi. Konungskaffi og Kaffi Krús héldu brauðtertu- og ostakökukeppni og hreinn meirihluti Sjálfstæðismanna í Árborg sprakk. Ísfélagið í Þorlákshöfn sagði upp öllu starfsfólki sínu, Hólmfríður Magnúsdóttir tók fram knattspyrnuskóna og Flóaskóli sigraði í Skólahreysti. Þá vakti viðtal sunnlenska.is við naglafræðinginn Guðbjörgu Maríu Onnoy mikla athygli.
Í júní héldu Íslendingar upp á þjóðhátíðardaginn og sunnlenska.is birti að venju myndir af sunnlensku fjallkonunum. Fröken Selfoss endurhannaði matseðilinn sinn frá grunni og Sunnlendingar fengu forsmekkinn af sumrinu með gulri viðvörun í júní. Þrátt fyrir leiðindin í veðrinu var boðið upp á útimarkað í Tryggvagarði í allt sumar.
Mest lesnu fréttirnar í janúar til júní 2024:
1 – „Frábært hvað læknar eru opnir fyrir þessu“
2 – Sunnlensku fjallkonurnar 2024
3 – „Það var bara að hrökkva eða stökkva – og við stukkum“
4 – Býst við fleiri smitum næstu vikurnar
5 – „Það er augljóst að Aníta á góða að“
6 – Nettó opnar nýja verslun á Selfossi
7 – „Ákveðin lítil stelpukona sem fær að ráða sér sjálf“
8 – Íslenskur matur fyrir Íslendinga
9 – Trampólín á flugi og tré rifnuðu upp með rótum
10 – Hafnartún brennur