Fréttir ársins 2024: Júlí – Desember

Kaldaðarnesvegur var ófær eftir stórflóð í Ölfusá í desember. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hér fyrir neðan má sjá samantekt á mest lesnu fréttunum í júlí til desember 2024 á sunnlenska.is. Farið er yfir mest lesnu fréttir hvers mánaðar og neðst má sjá tíu mest lesnu fréttir seinni hluta ársins 2024.

Í júlí var mikill viðbúnaður í Kerlingarfjöllum vegna neyðarboðs sem reyndist vera falsboð. Auglýst var eftir prestum í þremur prestaköllum og eigendur veitingastaða í mathöllinni á Selfossi sáu um þrifin á meðan ræstingafólkið horfði á Rúmeníu leika gegn Hollandi á EM í fótbolta. Óli Guðmunds hélt áfram að raða inn öldungametum í frjálsum, lögreglan tjáði sig um aukinn vopnaburð ungmenna á Selfossi og stórt hlaup varð í Skálm í Skaftárhreppi og þar birti sunnlenska.is fyrstu fréttamyndirnar frá vettvangi.

Í ágúst opnaði þjónustumiðstöðin Laufey við Suðurlandsveg, stórbrunar urðu í Hoftúni og Efsta-Dal, Beint frá býli-dagurinn var haldinn í Gunnbjarnarholti og skólameistaraskipti urðu í Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Í september varð enn einn stórbruninn þegar hesthús eyðilagðist í Efra-Langholti, Tommi Þórodds opnaði Mar í miðbæ Selfoss og Árborg reyndi að selja lóðir en fékk ekki tilboð í þær allar. Víðtæk leit var gerð að manni í Mýrdalnum, sem fannst síðar látinn í Reynisfjalli.

Í október fékk rófubóndi í Stóru-Sandvík stóran reikning frá heilbrigðiseftirlitinu, samið var um íbúðabyggð við Selfossbæina, allt fór á hliðina í hálku í Kömbunum, hönnun glæsilegs miðbæjar í Þorlákshöfn var kynnt og kennarar í Fjölbrautaskóla Suðurlands samþykktu að fara í verkfall sem stóð svo fram í desember.

Í nóvember var kennaraverkfallið í FSu farið að bitna illilega á nemendum, sem voru ekki bjartsýnir á framhaldið og sunnlenska.is birti fjölmargar fréttir um málið. Megnið af oddvitum framboðanna fyrir alþingiskosningarnar skrópaði á framboðsfund á Sviðinu, Fjóla og Snorri keyptu Pylsuvagninn og Ronja Lena sigraði í Söngkeppni NFSu, sem haldin var í skugga verkfalls kennara.

Í desember sögðum við frá því að nýir eigendur hafa tekið við rekstri skemmtistaðanna í miðbæ Selfoss. Allt fór á flot undir Eyjafjöllunum og stórflóð varð í Ölfusá neðan við Selfoss, hið stærsta í 40 ár. Jólaviðtal sunnlenska.is við Sunnlendinga á Nýja-Sjálandi vakti mikla athygli og stór Lottóvinningur fór til Þorlákshafnar. Og loksins, loksins opnaði nýja Nettóverslunin á Selfossi eftir margar fréttir um fyrirhugaðan opnunardag.

Mest lesnu fréttirnar í júlí til desember 2024:
1 – Laufey er nútíma bensínstöð – án bensíns
2 – Sunnlendingar kunna að hafa gaman
3 – Hesthús eyðilagðist í eldsvoða
4 – Yfir 50 manns komu að björgunaraðgerðum í Kerlingarfjöllum
5 – Þrjú brauð í boði á Suðurlandi
6 – „Rússíbani, heimþrá og ævintýri allt í bland“
7 – Eigendurnir sjá um þrifin svo starfsfólkið geti horft á leikinn
8 – „Við erum bara einhver skóli úti á landi sem enginn er að pæla í“
9 – Ölfusá flæðir yfir bakka sína í Sandvíkurhreppi
10 – „Man ekki eftir annarri eins opnun“

Fréttir ársins 2024: Janúar – Júní

 

Fyrri greinBergrós og Hákon íþróttafólk Árborgar 2024
Næsta greinCargow Thorship siglir til Þorlákshafnar