Eitt af þeim svæðum sem fór mjög illa við öskufall úr Eyjafjallajökli árið 2010 voru melirnir vestan við Gígjökul á Þórsmerkurleið.
Þykk aska lagðist yfir stórt landsvæði og virtist ætla að kæfa mikið af þeim gróðri sem þar var. Þá var oft á tíðum, þegar vind hreyfði, mikið öskufok sem takmarkaði sýn þeirra sem áttu leið um.
Að frumkvæði ábúenda á Stóru Mörk var ákveðið að friða landið og í kjölfarið var hafist handa við uppgræðslu á hinu illa farna landi. Meðfylgjandi myndir sýna vel hvernig til hefur tekist. Fyrri myndin er tekin snemma vors 2012 en hin síðari í september.
Á heimasíðu Landgræðslunnar segir að þessum góða árangri megi m.a. þakka samspili friðunar, áburðargjafar og hagstæðri veðráttu.
Myndin er tekin snemma vors 2012. Ljósmynd/Garðar Þorfinnsson.