Friðlýsing sex svæða felld úr gildi

Kerlingarfjöll, séð til austurs. Ljósmynd © Mats Wibe Lund

Umhverfisráðuneytið tilkynnti í dag að friðlýsing sex svæða á Suðurlandi hefði verið felld úr gildi. Þetta er gert í kjölfar þess að Hæstiréttur Íslands úrskurðaði í vor að að friðlýsing verndarsvæðis Jökulsár á Fjöllum frá árinu 2019 hefði verið ólögmæt.

Í úrskurði Hæstaréttar segir að Alþingi hefði ekki fjallað um afmörkun verndarsvæðisins líkt og lög geri kröfu um. Umhverfis- og auðlindaráðherra hafi ekki verið heimilt að ákvarða friðlýsinguna, heldur hefði hann þurft að fara með nýja tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi með afmörkun verndarsvæðisins áður en hægt væri að friðlýsa svæðið.

Svæðin sem um ræðir eru Geysir, Kerlingarfjöll, Tungnaá, Brennisteinsfjöll í Ölfusi, Hólmsá í Skaftárhreppi og Jökulfall og Hvítá.

Eingöngu er um að ræða friðlýsingar á grundvelli verndarflokks verndar- og orkunýtingaráætlunar og hafa afturkallanirnar því ekki áhrif á friðlýsingu Geysis sem náttúruvættis eða Kerlingarfjalla sem landslagsverndarsvæðis.

„Aðalatriðið í þessu máli er að það er enginn að fara að virkja á Geysi, í Kerlingarfjöllum eða innan þessara svæða. Í kjölfar afturkallananna munum við einfaldlega beina því til verkefnisstjórnar að taka þessa virkjunarkosti aftur til mats svo Alþingi geti tekið þá til þinglegrar meðferðar með það að lokamarkmiði að verndarsvæðin verði friðlýst aftur á lögmætan hátt þegar bætt hefur verið úr ágalla friðlýsinganna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Ráðherra mun nú beina því til verkefnisstjórnar að taka umrædda virkjunarkosti aftur til mats í samræmi við ákvæði laganna um verndar- og orkunýtingaráætlun. Þegar tillögur verkefnisstjórnar liggja fyrir mun Alþingi síðan fá þá til afgreiðslu.

Fyrri greinFuglaflensa á alifuglabúi í Ölfusi
Næsta greinDrottningin í Dalnum – Ættarsaga úr Árnessýslu