Frískápur opnar á Selfossi

Frískápurinn er staðsettur fyrir utan Nytjamarkaðinn á Selfossi. Ljósmynd/Jóhanna SH

Í gær opnaði svokallaður frískápur fyrir utan Nytjamarkaðinn á Selfossi að Gagnheiði 32. Frískápur er deiliskápur sem hefur það að markmiði að minnka matarsóun með því að deila neysluhæfum mat milli fólks.

„Ég bjó í Vesturbænum í nokkur ár og í desember síðastliðnum sá ég á Facebookhóp Vesturbæjar að kona sem heitir Þórdís var búin að opna frískáp við Neskirkju. Mér fannst þetta svo flott og þarft framtak að ég fór að kynna mér allt um frískápinn. Ég hafði samband við hana og fékk fullt af góðum upplýsingum. Hún benti mér á að Lauren Walton væri eitthvað byrjuð að vinna í að koma upp frískáp hér á Selfossi svo ég hafði sambandi við hana og þá fór boltinn að rúlla,“ segir Karen Gestsdóttir, ein af þeim sem stendur á bak við frískápinn á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.

Karen segir að hún hafi sjálf alltaf átt erfitt með að henda mat. „Ég hef oft hugsað hvað það væri gott að geta komið honum eitthvert þar sem hann yrði nýttur. Sérstaklega eftir veislur og aðra viðburði þar sem maður situr kannski upp með fullt af afgöngum. Einnig þegar farið er í frí og þá er gott að geta hreinsað úr ísskápnum og komið matvælunum í góðar hendur.“

Samvinnuverkefni margra góðra aðila
Karen segir að það hafi tekið sirka þrjá mánuði að framkvæma hugmyndina. „Við Lauren erum báðar í vinnu og háskólanámi svo við gerðum þetta bara á okkar hraða. Eins og fyrr segir var hún byrjuð að grennslast fyrir um þetta hér á Selfossi og spá í staðsetningu fyrir frískápinn og stofna Facebookhóp þegar ég kem inn í verkefnið.“

„Ég þekki aðeins til þeirra sem reka Nytjamarkaðinn og ákvað að heyra í þeim varðandi staðsetninguna. Þau tóku strax mjög vel í þetta og samþykktu að hafa skýlið fyrir utan hjá sér sem við erum mjög þakklátar fyrir. Ég heyrði svo í Byko og þeir vildu endilega styrkja verkefnið með efni í skýlið.“

Karen Gestsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Í framhaldinu settu þær stöllur inn auglýsingu á Facebook hópinn Íbúar á Selfossi og óskuðum eftir smið til að hanna og smíða skýlið. „Helgi Haraldsson smiður var ekki lengi að taka þetta að sér og var skýlið tilbúið nokkrum dögum seinna. Ingvar í Nytjamarkaðnum fékk svo Gunnar Þór rafvirkja til að tengja rafmagnið í skýlið. Ísskápinn og skjalaskápinn fengum við svo gefins í gegnum Facebook og sá sendibílaþjónustan keyrsla.is um að koma skjalaskápnum til okkar úr Reykjavík á Selfoss.“

Frábærar viðtökur
Sem fyrr segir opnaði frískápurinn á Selfossi í gær og hafa viðtökurnar strax verið mjög góðar.

„Viðtökurnar hafa verið alveg frábærar og alveg fram úr björtustu vonum! Strax á fyrstu klukkutímunum var fólk búið að koma með mat í ísskápinn og einnig taka sér mat,“ segir Karen og bætir því við að fyrirtæki á svæðinu hafi strax tekið mjög vel í verkefnið. „Það er yndislegt hvað allir eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum. Planið er að heyra í fleirum fyrirtækjum og kynna verkefnið fyrir þeim. Það væri æðislegt ef fleiri fyrirtæki myndu taka þátt í þessu með okkur.“

Ísskápurinn er gjöf frá Guðlaugu Margréti. Ljósmynd/Jóhanna SH

Sá tíundi á landinu
Frískápurinn fyrir utan Nytjamarkaðinn er sá fyrsti á Selfossi en nokkrir frískápar eru staðsettir víðsvegar um land. Hugmyndin að frískápnum er þó aðeins tveggja ára gömul.

„Kamila og Marco, Reykvíkingar ársins 2022, komu með þessa hugmyndafræði til Íslands og opnuðu fyrsta frískápinn í 101 Reykjavík í júní 2021. Þetta er alltaf einstaklingsframtak og engin samtök á bakvið þetta. Það er skemmtilegt að segja frá því að frískápurinn á Selfossi er skápur númer tíu á landinu og eru nokkrir í vinnslu víðsvegar um landið.“

„Það kom fullt af frábæru fólki og fyrirtækjum að þessu verkefni og allir gáfu vinnuna sína. Fyrir utan þá sem ég nefndi hér á undan þá fengum við þennan flotta ísskáp gefins frá Guðlaugu Margréti og Lauren og vinir hennar ætla svo að sjá um að frískápurinn verði reglulega þrifinn og allt sé eins og það á að vera. Frábær samvinna!“

Fólk getur bæði komið með – eða tekið – þurrvöru og kælivöru í frískápinn. Ljósmynd/Jóhanna SH

Öllum er frjálst að nýta sér frískápinn
Karen er þakklát hversu góðar viðtökur verkefnið hefur fengið og vonast til að sem flestir nýti sér frískápinn. „Ég vona að einstaklingar og fyrirtæki hér á Selfossi og nágrenni taki vel í verkefnið, komi neysluhæfum matvælum í frískápinn og gangi vel um hann og skýlið. Öllum er frjálst að setja í og taka úr skápnum hvenær sem þeim hentar og nýta þar með matvæli sem annars yrði hent. Markmiðið með verkefninu er að minnka matarsóun og í leið hjálpa þeim sem þurfa. Ég vil enn og aftur þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessu verkefni með okkur og létu það verða að veruleika! Takk!“ segir Karen að lokum.

Facebooksíða frískápsins

Fyrri greinGunnlaug ráðin deildarstjóri skólaþjónustu
Næsta greinÞór fékk tækifærin til að loka tvíframlengdum leik