Kettir í sveitarfélaginu Árborg skulu lokaðir inni á heimilum eigenda sinna eða bundnir úti í garði. Frjálsir eru þeir hirtir af kattafangara og svæfðir af dýralækni ef enginn vitjar þeirra innan viku.
Þannig eru nýjar reglur sveitarfélagsins Árborgar um „lausagöngu“ katta.
Katta- og hundahald var til umræðu á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku. Einn bæjarfulltrúa sem tók til máls sagðist hafa átt tvo páfagauka, báða drepna af nágrannakettinum.
„Lausir kettir eru ekki til minni ama en lausir hundar,“ segir Margrét Katrín Erlingsdóttir bæjarfulltrúi. „Þeir læðast inn um glugga og gera skurk í eldhúsinu eða annars staðar. Rannsóknir sýna að kattaskítur í sandkössum getur verið hættulegur börnum.“
Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu.