Björgunarsveitir í Rangárvallasýslu hafa tvívegis verið kallaðar út í dag til leitar að göngufólki að Fjallabaki. Í báðum tilvikum var um frönsk pör að ræða.
Rétt eftir klukkan eitt óskaði franskt par eftir aðstoð þegar það villtist af leið. Byrjað var að snjóa og fólkið orðið blautt og kalt enda illa útbúið. Stuttu síðar komst það í skála í Landmannalaugum og var því aðstoð björgunarsveita afturkölluð.
Á þriðja tímanum í dag hafði svo skálavörður í Landmannalaugum samband við Neyðarlínu eftir að annað franskt par hringdi þangað. Hafði það líka lent í villum og þarf aðstoð. Fólkið er illa útbúið, t.a.m. ekki með landakort, aðeins mynd af einu slíku.
Eftir lýsingu á staðháttum frá fólkinu að dæma er það líklegast statt á veginum upp í Hrafntinnusker og er verið að senda björgunarsveitabíla að þeim úr tveimur áttum. Með í bílunum er fólk sem getur hafið hraðleit á svæðinu ef á þarf að halda.
Blautt og kalt er á svæðinu og byrjað er að snjóa í fjöllum.