Um fimmtíu störf munu flytjast frá Þorlákshöfn uppúr næstu áramótum þegar Frostfiskur hættir starfsemi sinni í bænum og flytur til Hafnarfjarðar.
Greint var frá þessu í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Frostfiskur er einn stærsti vinnustaðurinn í bænum en fyrirtækið er 25 ára gamalt og hefur síðustu 19 ár verið í Þorlákshöfn. Starfsmenn þar eru um fimmtíu talsins en hefur fækkað nokkuð á undanförnum misserum. Fyrr í haust var tuttugu starfsmönnum sagt upp hjá fyrirtækinu. Starfsfólkinu hefur nú verið tilkynnt að lokað verði í Þorlákshöfn í upphafi næsta árs.
Þar var rætt við Steingrím Leifsson, annan eiganda fyrirtækisins, sem sagði að fyrirtækið þyrfti að komast nær höfuðborgarsvæðinu til þess að lækka kostnað, minnka flutningskostnað og komast í nýtt hús með nútímatækjum.