Frumkvöðull í ræktun á seljurót

Þröstur sonur Sigrúnar í seljurótargarðinum. Ljósmynd/Aðsend

Sigrún Oddgeirsdóttir hefur verið að byggja upp lífræna útiræktun á grænmeti í Holta- og Landsveit. Er seljurót þar fremst í flokki.

Sigrún, sem garðyrkjufræðingur að mennt, leitar nú að aðstöðu til að forrækta í gróðurhúsi til að geta haldið áfram með frekar útiræktun á grænmeti, sem Íslendingar hafa annars verið að kaupa innflutt.

Hugmyndin að ræktun á seljurót og fleiri tegundum af grænmeti varð til eins svo margar aðrar góða hugmyndir – eftir gott spjall.

„Sumarið 2021 starfaði ég fyrir Landssamband hestamanna sem umsjónarmaður Skógarhóla. Skógarhólar eru vinsælasti áfangastaður hestamanna á reiðleiðum um Þingvelli. Á staðnum er góð aðstaða til gistingar bæði fyrir menn og hesta. Starfið var æðislegt og ég fékk mörg tilboð um að slást í för með hópum svo hægt væri að leiðbeina þeim veginn, sérstaklega ef skyggni var slæmt. Þá var ég gengin hálfa meðgöngu og gat því ekki þegið boðsferðirnar,“ segir Sigrún í samtali við sunnlenska.is.

Sigrún Oddgeirsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Lífrænt garðyrkjubýli í uppbyggingu
„Einn sólríkan dag lenti ég á spjalli við gesti á staðnum og fer samtalið að snúast um meðgönguna og í kjölfarið vildi fólkið endilega gefa mér að smakka jarðaber úr þeirra eigin ræktun sem var kærkomið því ég var sí-svöng þegar þarna er komið við sögu. Út frá því fer samtalið að snúast um garðyrkju því ég stundaði nám við Garðyrkjuskólann á Reykjum og úr varð að ég fékk leigða hjá þeim aðstöðu til forræktunar á matjurtum síðasta vor.
Ég og maðurinn minn erum nefnilega að byggja upp lítið lífrænt garðyrkjubýli í Holta- og Landsveit sem er í þessum töluðu orðum bókstaflega á teikniborðinu.“

Sigrún segist enn ekki hafa aðstöðu til að forrækta. „Ef einhver er til í að leigja mér aðstöðu í gróðurhúsi, sem er í hæfilegri fjarlægð frá höfuðborginni má viðkomandi endilega hafa samband við mig fyrir komandi vor.“

Sellerí og seljurót sama tegundin
Sveipjurtaættin á hug Sigrúnar allan. „Sveipjurtaættin skartar fjölmörgum matjurtum eins og gulrót, fennel, dill, sellerí o.fl. Ætihvönnin er líka meðlimur ættarinnar og ég hef persónulegar taugar til hennar. Þess vegna heilla aðrar sveipjurtir mig sérstaklega. Ég hef áður ræktað fennel með góðum árangri, þrátt fyrir að það sé ekki mikið ræktað hér á landi, þess vegna langaði mig að prófa aðra sveipjurtamatjurt sem ekki hefur verið almennt í ræktun.“

„Reyndar er seljurót og sellerí sama tegundin og það síðarnefnda hefur verið að vekja góða lukku í ræktun undanfarin ár. Um er að ræða ólík yrki en seljurótaryrki safna forða í rótarhálsinn sem blæs út, við það klofna stönglarnir þar sem þeir tengjast hálsinum svo þeir verða ólystugir til neyslu.“

Köld sumur geta valdið svartsýni hjá matjurtum
Við ræktun á öllu útigrænmeti á Íslandi skiptir yrkjaval höfuðmáli. „Almennt þarf seljurót fimm mánuði til að mynda forðarót svo það segir sig sjálft að það gengur ekki upp á Íslandi. En það hefur verið reynslan að yrkjaval skiptir sköpum þegar kemur að öllum gróanda svo ég reyni að leggja vinnu í að kynna mér ólík yrki þegar kemur að því að velja inn einhverja nýjung.“

„Það sem hafa ber í huga er að hér eru sumrin köld og stutt sem getur valdið svartsýni hjá matjurtum. Þær sjá ekki fram á að það borgi sig að taka sér tíma til forðasöfnunar svo þær geti nýtt orkuna til fræmyndunar seinna, heldur flýta sér í blóma. Svona kvíðnar plöntur koma ekki með góða uppskeru.“

Seljurótin harðgerð og kuldaþolin
Sigrún notar sérstakt yrki sem hún keypti inn frá Póllandi til að rækta seljurótina. „Stundum finn ég gamalreynt yrki sem hefur verið ræktað lengi í skilyrðum sem svipa til aðstæðna hér á landi en í tilfelli seljurótarinnar nota ég kynbætt yrki sem er fljótsprottið.“

„Seljurótin sem mér hefur tekist að rækta í útiræktun þroskar forðarót á þremur mánuðum. Í eðli sínu er seljurótin harðgerð og mun kuldaþolnari en selleríið og því þarf ekki að veita hitastigi á seinni ræktunarstigum mikinn gaum en ég tel að það best að herða ungplönturnar áður en þær eru teknar úr heitu húsi og plantað út. Rótin getur vel vaxið án þess að henni sé veitt skjól en skjólgott garðland mun skila stærri rótum í betri gæðum.“

Nær ekki að anna eftirspurn
Sigrún segir að viðtökurnar við seljurótinni hafi verið áhugaverðar vegna þess að Íslendingar þekkja seljurótina lítið. „En þeir sem þekkja til, veitingamenn sérstaklega, eru mjög spenntir. Ég hef heyrt orðin „ég hef verið að bíða eftir íslenskri seljurót!“ Ég hef fengið mjög einlægar spurningar sem sveiflast frá því að fólk vill vita hvers vegna enginn sé að rækta ræturnar og yfir í það hvort það eigi ekki bara að sjóða þær; sem ég mæli ekki með! Ég var ekki í neinum vanda með söluna og náði ekki að anna eftirspurn.“

„Mínir helstu kaupendur eru allir sammála um að íslenskt grænmeti er betra að gæðum en það innflutta. Þeir sem ekki þekkja seljurótina kaupa til að smakka en veitingamenn vilja kaupa hana í miklu magni. Einn veitingastaður getur verið að fara með 15 kg á mánuði og þess vegna segi ég oft við fólk að það hafi áreiðanlega smakkað seljurót áður en ekki vitað af því. Það var Matland sem keypti upp uppskeruna að mestu en þeir selja bæði til fagmanna og einstaklinga.“

Góð með öðru rótargrænmeti
Sigrún er sú eina á Íslandi sem ræktar seljurót í svona miklu magni. „Ég veit að fleiri hafa verið að prófa ræktun á rótinni í gróðurhúsum eða upphituðum jarðvegi en ekki í miklu magni. Einnig hef ég heyrt sögur af því að útiræktun hafi ekki tekist en þá er viðkomandi ekki að nota sama yrki og ég.“

En hvað segir seljurótarbóndinn um það hvernig sé best að matreiða seljurótina? „Seljurótin er best ofnbökuð og í súpum. Ég geri mikið af því að brytja niður blandað rótargrænmeti í eldfast mót með olíu og kryddi sem ég ofnbaka. Að baka seljurótina svona í bland við kartöflur er góð leið til að gera máltíðina léttari. Þegar ég geri súpu finnst mér gott að skera niður seljurót og rófur í litla bita og steikja með smá olíu í botni á potti. Áður en vatni er bætt við strái ég matskeið af hveiti yfir og steiki andartak. Síðan bæti ég við súputening ásamt salti og pipar og mauka með töfrasprota. Loks set ég ferskt garðablóðberg út í og leyfi suðunni að koma upp og kreisti smá sírtónusafa út í.“

Stefnir á útiræktun á fennel
Seljurót er ekki það eina sem Sigrún hefur verið að rækta. „Í sumar ræktaði ég fennel, rauðrófur og radísur samhliða seljurótinni. Þar sem ég hef enn ekki tryggt mér forræktunaraðstöðu fyrir næsta ræktunartímabil geri ég ráð fyrir að bjóða upp á litríkar kartöflur, gulrætur og rófur ásamt því að gera tilraun til að forrækta fennel án gróðurhúss. Ég tel að það muni takast því yrkið sem ég nota hefur komið mér skemmtilega á óvart. Það er ættað frá svissnesku ölpunum og óttast því ekki köld og hörð veðurskilyrði en það er alltaf hætta á að missa suðrænar plöntur í blóma ef aðstæður eru of kaldar eða þurrar. Ef samningar um gróðurhúsaaðstöðu nást mun ég að sjálfsögðu bjóða aftur upp á seljurót og bæta við rauðrófum og sellerí.“

Lífræn ræktun ætti að vera sú hefðbundna
Sigrún stefnir á frekari lífræna ræktun. „Í framtíðinni langar mig að hafa garðyrkju sem mitt eina starf. Ég er garðyrkjufræðingur með líffræði bakgrunn svo augljóslega hef ég ákveðið að hafa mína ræktun lífræna. Lífræn ræktun snýst um að virkja náttúrulega ferla til fæðuframleiðslu. Það er oft talað um hefðbundna ræktunaraðferð og svo lífræna ræktunaraðferð en í raun ætti að orðræðan að vera þannig að lífræna aðferðin sé sú hefðbundna og notkun á tilbúnum áburði sé iðnvædd ræktunaraðferð.“

„Ég hef margar hugmyndir fyrir mína framtíðarræktun og langar að koma með fleiri nýjungar, en þær krefjast mikillar fjárfestingar svo það á eftir að taka mig tíma að byggja upp garðyrkjubýlið eins og ég sé það fyrir mér,“ segir Sigrún að lokum.

Fyrri greinHamarsmenn komnir á toppinn
Næsta grein„Eins og að fara í geggjuð jakkaföt sem maður var búinn að gleyma“