Nemendur og starfsfólk Fjölbrautaskóla Suðurlands klæddust bleikum fatnaði í dag til að heiðra minningu Bryndísar Klöru Birgisdóttur sem lést síðastliðinn föstudag.
„Verzlunarskóli Íslands var með bleikan dag í gær til að heiðra minningu Bryndísar Klöru. Við vildum einnig taka þátt og því klæddust nemendur og starfsfólk bleiku í dag til að sýna fjölskyldu og vinum Bryndísar Klöru samstöðu og samúð,“ segir Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir, formaður nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands, í samtali við sunnlenska.is.
Dýrleif segir að þátttakan í bleika deginum hafi verið góð. „Hvert sem þú leist sástu bleikan lit. Það var mjög fallegt að sjá hvað það tóku margir þátt,“ segir Dýrleif ennfremur.