Stjórnir og samninganefndir Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum hafa tekið þá ákvörðun að verkföll hefjist ekki aftur í Fjölbrautaskóla Suðurlands, verði enn ósamið í kjaradeilunni þann 1. febrúar næstkomandi.
Soffía Sveinsdóttir, skólameistari, greinir frá þessu í pósti til nemenda og forráðamanna þeirra í dag en tilkynning um þetta barst skólanum í morgun.
Þess í stað munu hugsanlegar aðgerðir beinast að öðrum framhaldsskólum strax í febrúar, verði ekki samið fyrr.
Verkfall í FSu stóð yfir frá 29. október þar til því var frestað nú um mánaðamótin. Kennsla verður í FSu til 20. desember næstkomandi og brautskráning sem átti að vera fyrir jól verður laugardaginn 11. janúar. Kennsla á vorönn hefst svo 15. janúar.