FSu hvetur foreldra til að bregðast við

Fjölbrautaskóli Suðurlands. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Í síðustu viku barst foreldrum og forráðamönnum nemenda við Fjölbrautaskóla Suðurlands orðsending frá skólameistara skólans þar sem fólk er beðið að bregðast við auknum vopnaburði og ofbeldi meðal barna og ungmenna.

Í bréfinu er áréttað að vopnaburður á almannafæri sé bannaðar samkvæmt lögum. Ef nemandi verður uppvís að því að bera vopn verður málið undantekningarlaust tilkynnt til lögreglu og eftir atvikum til barnaverndarþjónustu ef um barn er að ræða.

Mikilvægt að ala ekki á ótta
Soffía Sveinsdóttir, skólameistari FSu, segir í samtali við sunnlenska.is að andrúmsloftið sé gott í skólanum, bæði meðal nemenda og kennara. Þeir upplifa sig örugga í skólanum.

„Mér finnst mikilvægt að ala ekki á ótta meðal ungmenna, heldur nýta slagkraftinn í þeim, samanber bleika daginn sem var í síðustu viku. Ungmenni eru upp til hópa frábær og það er lítill minnihluti sem ber vopn. Við megum ekki gleyma því,“ segir Soffía.

Soffía Sveinsdóttir, skólameistari FSu. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Skiptir máli að börnum sé sýnd umhyggja
Minnt er á í bréfinu að ákveðnir þættir séu verndandi gegn áhættuhegðun barna svo sem samvera foreldra og barna, að fylgst sé með netnotkun þeirra, að börnum sé sýnd umhyggja og þeim séu sett skýr mörk og að foreldrar þekki vini barna sinna og foreldra þeirra. Jafnframt felist mikið forvarnargildi í þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og mikilvægt er að foreldrar séu virkir þátttakendur í foreldrastarfi.

Fyrri greinSigurganga Selfoss heldur áfram – Ægismenn öruggir
Næsta greinLítið jökulhlaup hafið í Skálm