Fjölbrautaskóli Suðurlands verður lokaður á morgun, í það minnsta, vegna kórónuveirusmita hjá kennurum og starfsmönnum skólans.
Þetta kemur fram í tölvupósti sem Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari, sendi nemendum og aðstandendum þeirra í kvöld.
„Því miður er komið upp smit í skólanum sem við vitum ekki hvað margir tengjast en það fóru margir í sýnatöku í dag, sem hafa ekki fengið niðurstöður enn. Það eru nokkrir kennarar og aðrir starfsmenn með Covid og veikir nú þegar. Aðrir eru með flensu og geta ekki kennt á morgun,“ segir Olga Lísa.
Skólinn verður lokaður á meðan er verið að greiða úr smitum og finna þá sem þurfa í sóttkví eða smitgát. Skólameistari hvetur þá nemendur sem verða varir við einkenni til þess að fara um leið í sýnatöku eða hraðpróf.