Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands lagði lið Fjölbrautaskólans í Garðabæ að velli í þriðju og næstsíðustu viðureign áttaliða úrslita Gettu betur í Ríkissjónvarpinu í kvöld.
Staðan var 17-17 að loknum hraðaspurningunum en lið FSu blómstraði í bjölluspurningunum og vann að lokum öruggan sigur á ríkjandi meisturum, 37-22.
Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands er því komið áfram í undanúrslit ásamt liðum Menntaskólans í Reykjavík og Menntaskólans á Akureyri. Að viku liðinni eigast við lið Kvennaskólans í Reykjavík og Borgarholtsskóla.
Lið FSu er skipað þeim Sólmundi Magnúsi Sigurðarsyni, Svavari Daðasyni og Guðnýju Von Jóhannesdóttur. Þjálfarar liðsins eru Stefán Hannesson og Jakob Heimir Burgel, en einnig nýtur liðið aðstoðar þeirra Hrafnhildar Hallgrímsdóttur og Hannesar Stefánssonar.