FSu úr leik í Gettu betur

Lið FSu (f.v.) Valgeir Gestur, Heimir Árni og Hrafnhildur Svava í Efstaleitinu. Ljósmynd: RÚV/Margrét Júlía Ingimarsdóttir

Lið Fjölbrautaskóla Suðurlands er úr leik í Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, eftir 30-21 tap í 16-liða úrslitum gegn Fjölbrautaskólanum við Ármúla í Ríkisútvarpinu í kvöld.

Keppnin var jöfn og spennandi lengst af en staðan var 13-14, Ármúla í vil, eftir hraðaspurningarnar. Um miðbik bjölluspurninganna hafði FÁ byggt upp naumt forskot og þau tryggðu sér svo öruggan sigur með því að taka hljóðspurninguna í lokin.

Lið FSu skipa þau Hrafnhildur Svava Sigurðardóttir, Valgeir Gestur Eysteinsson og Heimir Árni Erlendsson.

Menntaskólinn að Laugarvatni keppir í 16-liða úrslitum á morgun gegn Menntaskólanum í Reykjavík kl. 20:00.

Fyrri grein„Stækkunin breytir öllu“
Næsta greinNaumt tap gegn Íslandsmeisturunum