Bændur á Suðurlandi höfðu lítið upp úr krafsinu í kornræktinni í sumar vegna veðurs og ágangs álfta og gæsa.
Að sögn Kristjáns Bjarndal Jónssonar, jarðræktarráðunauts hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, var vorið mjög gott, sáning gekk vel og útlitið var gott fram á sumar.
„Þá kom sú tíð, að sólarleysið var mikið og óþurrkarnir í algleymingi og lítið var hægt að þreskja fyrr en í október, þegar nánast allt átti að vera búið,“ sagði Kristján í samtali við sunnlenska.is og bætir við að fuglar hafi valdið miklu tjóni í ökrum.
„Fuglinn var mikill skaðræðisgripur víða fyrst í vor og hann náði algjörlega yfirhöndinni í ágúst og september, þannig að það var lítið að hafa hjá bændum þegar þeir fóru að komast um vegna tíðarfarsins.“
Á vef Búnaðarsambands Suðurlands kemur fram að á tilraunabúinu á Stóra-Ármóti hafi gæsin og álftin hreinsað alveg þrjá hektara af þeim átján hekturum sem korn var ræktað á. Auk þess hafi vindar og jafnvel snjór gert skaða. Á Stóra-Ármóti fékkst á bilinu 1,4 til 1,7 tonn af korni á hektara sem er um það bil helmingur af því sem orðið hefði. Kornið hafði hins vegar náð mun betri fyllingu en í fyrra.