Þann 31. október næstkomandi keppir Ásahreppur í Útsvari, spurningakeppni sveitarfélaganna, í Ríkissjónvarpinu. Hreppurinn var dreginn úr hópi fámennari sveitarfélaga og keppir í fyrsta sinn í Útsvarinu.
Fyrir mánuði síðan var óskað eftir tilnefningum í liðið þannig að öllum gæfist kostur á að láta vita af fjölfróðu fólki sem gæti hugsað sér að mæta í sjónvarpssal og keppa fyrir hönd sveitarfélagsins. Nú hefur leitin skilað árangri og lið Ásahrepps er fullskipað.
Á heimasíðu hreppsins kemur fram að liðsstjóri verður Kristín Hreinsdóttir, Seli, og með henni skipa liðið fróðleiksmennirnir Ölvir Karlsson, Þjórsártúni og Birgir Skaptason frá Ásmúla.
Hreppurinn mun standa fyrir rútuferð í Efstaleitið á keppnisdaginn en mikilvægt er fyrir liðið að vösk sveit stuðningsfólk mæti í salinn og hvetji til dáða. Ferðin verður nánar auglýst síðar.
Fyrsta sunnlenska liðið í Útsvarinu í vetur er lið Rangárþings ytra, sem keppir í kvöld gegn Dalvíkingum. Lið RY skipa þau Hreinn Óskarsson skógarvörður í Odda, Steinar Tómasson aðstoðarskólastjóri á Hellu og Harpa Rún Kristjánsdóttir háskólanemi frá Hólum við Heklurætur.