Í gærkvöldi var fyrsti þáttur The Biggest Loser Ísland forsýndur í félagsheimilinu Hvoli á Hvolsvelli. Óhætt að segja að mikill spenningur hafi verið fyrir þættinum þar sem félagsheimilið var þéttsetið og haft var á orði að aðeins þorrablótið væri fjölmennara.
Ástæða þess að forsýningin fór fram á Hvolsvelli er sú að einn keppendanna í þáttaröðinni, Jónas Pálmar, er frá Hvolsvelli og starfar sem kjötiðnaðarmaður hjá Sláturfélagi Suðurlands.
Þættirnir voru teknir upp á Reykjanesi á tíu vikna tímabili í lok síðasta árs en úrslitaþátturinn verður sýndur í beinni útsendingu í byrjun apríl. Á meðan tökum stóð voru keppendur í stífu æfingaprógrammi og í raun án snertingar við umheiminn þar sem enginn keppenda var með síma eða nettengingu.
Þó að allir séu nú komnir heim þá er keppnin ennþá í fullum gangi og keppendur að æfa á eigin spýtur. Í lokaþættinum fer fram lokavigtun og þá kemur í ljós hverjir hafa staðið sig best frá upphafi til enda.
The Biggest Loser Ísland verður sýndur á fimmtudagskvöldum á SkjáEinum og hefjast sýningar þann 23. janúar.
Hér að neðan eru myndir af nokkrum forsýningargestum.